Nýtt myndband sem tekið var rétt fyrir klukkan eitt í nótt sýnir hvernig hraunið hefur runnið yfir Grindavíkurveg á kafla norðaustan við Svartsengi. Þá sést einnig í fjarska hvernig hraunið hefur á örskömmum tíma runnið langleiðina suður að Grindavík.
Einnig sést hve löng gossprungan er, en fyrr í kvöld sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur að hún væri um 3,5 km á lengi og að þetta væri kröftugasta gosið hingað til á undanförnum árum á Reykjanesskaga.
Myndskeiðið tók ljósmyndarinn Hörður Kristleifsson fyrir mbl.is.
Jafnframt má greina að á nokkrum stöðum á gossprungunni hefur virknin minnkað örlítið og er ekki alveg samfelld alla leið.
Í fjarska í suðurátt má svo sjá hvar sprungan og hrauntaumurinn teygir sig í átt að Grindavíkurbæ.
Almannavarnir í samvinnu við eigendur bæjarins Hrauns skoða nú þann möguleika að reisa varnargarða til að verja bæinn fyrir hraunflæði. Bærinn er austan Þórkötluhverfis í Grindavík.
Frá þessu greindi mbl.is upp úr miðnætti.
Hraunið rennur nú meðfram varnargörðunum og stefnir í átt að sveitabænum.
Haldist kraftur gossins óbreyttur gæti hraun mögulega náð þar til sjávar.