„Reyna að verja byggðina eins og hægt er“

Eldgosið sem hófst við Sundhnúkagígaröðina í gærkvöld er það sjöunda …
Eldgosið sem hófst við Sundhnúkagígaröðina í gærkvöld er það sjöunda á tæpum þremur árum. mbl.is/Árni Sæberg

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir óumdeilt að varnargarðarnir í og við Grindavík hafi sannað gildi sitt í eldgosinu sem braust út á Sundhnúkagígaröðinni í gærkvöld.

Fannar segir að það hafi ekki komið sér á óvart þegar eldgosið hófst á níunda tímanum í gærkvöld.

„Þetta var ekki spurning um hvort heldur hvenær það myndi draga til tíðinda. Auðvitað gat þetta orðið annað kvikuinnskot en líkurnar voru orðnar meiri á að eldgosi,“ segir Fannar við mbl.is.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðdragandinn nánast enginn

Fannar segir að aðdragandinn að gosinu hafi verið nánast enginn en vel hafi gengið að rýma Bláa lónið og þá staði sem þurfti að rýma.

„Það var alltaf óvissa hvar upptökin yrðu og um hraunflæðið en miðað við aðstæður þá er gosið á þokkalegri stað heldur en það hefði geta verið. Vissulega hefur hraun flætt yfir Grindavíkurveginn og það er að nálgast Suðurstrandarveginn, sem er afleit staða, en gosið er ekki að ógna öðrum innviðum eins og horfurnar eru núna,“ segir Fannar.

Fannar segir að eldsumbrotin séu ekki yfirstaðinn og menn þurfi að hafa allan varann á en staðan sé þokkaleg. Hann segir að það versta sé að tvær leiðir af þremur inn og út úr bænum séu lokaðar tímabundið og það sé ástand sem sé ekki viðunandi ef kom til rýmingar.

„Vegagerðin brást skjótt við síðast og lagði veg yfir tiltölulega ný runnið hraun og það ætti kannski ekki að vera nein fyrirstaða að gera eitthvað svipað núna.“

Engin starfsemi á meðan gos er í gangi

Hann segir að engin starfsemi verði í bænum á meðan það gjósi en um leið og neyðarstigi verði aflétt og gosið afstaðið þá sé hægt að hefjast handa á nýjan leik og halda úti starfsemi á milli gosa.

„Það er allt eins líklegt að fáum annað gos eftir einhverjar vikur. Vísindamenn segja að á meðan gosrás sé opin og sama innflæði haldi áfram þá séu engar líkur á öðru en að þetta haldi áfram.“

Fannar segist vonast til þess að þessir atburðir taki enda fyrr en síðar svo hægt verði að hefjast í frekari uppbyggingu í bænum. 

Gríðarleg verðmæti í húfi

„Við erum bara að reyna halda sjó hvað varðar innviðina núna. Halda þeim gangandi en ekki verður farið út í meiriháttar viðgerðir í bili. Stefnan er sú að reyna að verja byggðina eins og hægt er. Það eru gríðarleg verðmæti í húfi og bara höfnin er tuga milljóna króna virði.“

Hann segir að þótt kostnaður sé mikill við varnirnar þá sér vel forsvaralegt að halda áfram að reyna. 

„Það er alveg óumdeilt að varnargarðarnir hafi sannað gildi sitt. Þeir eru að bjarga því sem bjargað verður eins og við sjáum núna,“ segir bæjarstjórinn í Grindavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert