„Við sjáum að það hefur hægt á framrásinni en það er ennþá töluvert gos og hraunrennsli sem nær fram í þessar tungur og það er hætta á að Suðurstrandarvegurinn geti farið í sundur.“
Þetta segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna við mbl.is.
„Suðurstrandarvegurinn er í hættu enda ekki nema tæpir 500 metrar að hrauntungurnar nái að veginum. Við lokuðum gati sem var við varnargarðana. Það var mokað í það skarð í gærkvöldi og ef þetta fer af stað þá erum við alla vega búnir að loka því og þá erum með eins mikið af varnargörðunum tilbúna eins og hægt er. Ef þetta hleypur af stað þá fer Suðurstrandarvegurinn undir,“ segir Víðir og bætir því við að það hafi aldrei verið í plönunum að verja hann.
Hann segir að hraunrennslið sé greinilegra sunnan megin og þar hafi myndast stór hrauntjörn.
„Reynslan sýnir okkur að á endanum mun bakkarnir bresta ef það heldur áfram að streyma inn í tjörnina og þá geti hraunið runnið til sjávar ansi hratt. Hinum megin er endinn á hrauntungunni um 100 metra frá Njarðvíkuræðinni og lögnunum þar. Það virðist ekki vera eins mikið streymi þar inn núna,“ segir Víðir.
Víðir segir að unnið hafi verið í því að verja Njarðvíkuræðina. Það hafi verið sett efni yfir allar viðgerðir og HS Orka hafi byrjað að undirbúa það í nótt að senda kaldara vatn eftir leiðslunni.
„Við vitum að ef hraun rennur yfir hana þá mun hún hitna og þá er hugmyndin um að kæla hana líka innanfrá. Það er allt tilbúið fyrir það og það er búið að gera allt sem hægt er að gera. Við verðum bara að sjá hvernig þetta fer,“ segir Víðir.
Rafmagn var tekið af Grindavíkurbæ í nótt en því var hleypt aftur á rétt fyrir klukkan 2 í nótt.
„Þetta snýst um það að til þess að halda fullri virkni í framleiðslu á heita vatninu í Svartsengi þá þarf rafmagn fyrir það og á meðan á því að það var hætta á því að við þyrftum að taka Svartsengislínuna, sem er við Njarðvíkuræðina, úr rekstri þá hefði það geta haft áhrif. Nú er búið að koma varaafli á.“
Ekki hefur verið að hægt að fljúga yfir gossvæðið í morgun en Víðir segir að það verði skoðað þegar líður á daginn.
„Það er leiðindaveður á svæðinu. Við erum með öfluga dróna sem við höfum reyndar átt í vandræðum með vegna veðursins. Við munum bíða með fram að hádegi að fá eitthvað betra sjónmat en það er stjórnstöð við Grindavík sem fylgist með og gefur okkur upplýsingar um hraunendana og mælingar.“
Víðir segist vona að gosið hegði sér með svipuðum hætti og síðustu gosin. Hann segir að mat náttúrufræðinganna sé að dregið hafi verulega úr gosinu og hann bindur vonir við að á næstu klukkustundum sjáist enn frekar að gosið sé í rénun.