Starfsemi virkjunarinnar í Svartsengi er óröskuð þrátt fyrir eldgosið sem hófst í gær. Í nótt leit út fyrir það að háspennulínur gætu verið í hættu en hrauntungan virðist hafa stoppað í morgun, 200 metrum frá háspennulínum og heitavatnslögninni.
Þetta segir Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku, í samtali við mbl.is.
„Svartsengi er bara í fullum rekstri og ekkert rof á okkar starfsemi. Sömuleiðis eru alla lagnir frá orkuverinu öruggar. Hrauntungan sem þarna kom stöðvaðist svolítið frá háspennulínum og heitavatnslögninni okkar þannig það urðu engin áhrif á þær lagnir,“ segir Kristinn.
Virkjuninni var fjarstýrt í nótt frá Reykjanesvirkjun en núna eru starfsmenn mættir aftur í Svartsengi.
Á ákveðnum tímapunkti í nótt voru blikur á lofti en allt stefndi í að hrauntungan myndi ná að Svartsengislínu 1 og heitavatnslögninni. Búið var að fergja heitavatnslögnina en Svartsengislína 1 var nokkuð berskjölduð. Starfsmenn fóru því í Svartsengi í nótt til að ráðst í fyrirbyggjandi aðgerðir.
„Við fórum í svona fyrirbyggjandi aðgerðir til að tryggja rafmagnsöryggi inn í virkjuninni og þurftum því að taka rafmagn af Grindavík í skamma stund vegna þess.
Það var gert til þess að auka stöðugleika í rekstri virkjunarinnar til að geta afhent heitt vatn alveg óskert, ef til þess kæmi að það yrði skammhlaup á háspennulínunni. En það er búið að færa þetta allt til fyrra horfs og allt komið í eðlilegan rekstur,“ segir Kristinn.
Er eitthvað annað sem þið hafið áhyggjur af núna eða lítur þetta allt ágætleg út?
„Þetta lítur allt mjög vel út. Það virðist vera að hraunið hafi stöðvast á þessum stað og á meðan svo er þá er starfsemin örugg og orkuverið öruggt innan varnargarðana.“