Aldrei hafa fleiri verið brautskráðir af háskóalstigi en nú samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands.
Alls voru 5.458 nemendur sem útskrifuðust með 5.488 háskóla- og doktorspróf skólaárið 2021-2022 og fjölgaði brautskráningum um 246 á milli ára eða um 4,7%.
Brautskráningar voru 2.826 vegna fyrstu háskólagráðu, brautskráningar með viðbótardiplómu voru 671 og 89 luku doktorsprófi. Eins og undanfarin ár voru konur um tveir þriðju nemenda sem luku háskólaprófi eða 67,7%.
Þá fer brautskráningarhlutfall aftur á móti lækkandi frá árinu 2008 þegar það var hæst, en hlutfallið sýnir fjölda nýnema sem hafa lokið námi innan tíu ára frá innritun. Árið 2008 höfðu 73,1% þeirra sem hófu nám árið 1998 brautskráðst, en í dag hafa 62,6% þeirra sem hófu nám árið 2012 útskrifast, að því er Hagstofan greinir frá.
Öll árin sem Hagstofan hefur reiknað brautskráningarhlutfall á háskólastigi hefur hlutfall kvenna sem lýkur námi verið hærra en karla.
Þá eru langflestir brautskráðir nemendur á háskólastigi skólaárið 2021-2022 án erlends bakgrunns, eða tæp 83% brautskráðra en til þessa hafa aldrei fleiri innflytjendur útskrifast úr námi á háskólastigi að undanskildu.
Á doktorsstigi voru brautskráðir án erlends bakgrunns 58,4% en innflytjendur voru rúm 37% doktora.
Þá voru rúmlega sex af hverjum tíu stúdentum skólaárið 2021-2022 19 ára og yngri en 13,2% voru 20 ára. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hefur hækkað mikið síðustu ár í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs.
Þá hafa aftur á móti 241 færri útskrifast af framhaldsskólastigi en árið áður eða um -4,3% en fleiri en nokkru sinni áður hafa brautskráðst af viðbótarstigi, sem bætist ofan á framhaldsskólastig.
Einnig eru fleiri brautskráðir með sveinspróf og réttindapróf á framhaldsskólastigi og fjölgaði þeim um 5,3% og 9,8% á milli ára.
Það vekur athygli hversu miklu munar á aldri þeirra sem ljúka stúdentsprófi annars vegar, og sveinsprófi hins vegar, en hvort tveggja eru lokapróf á framhaldsskólastigi á 3. hæfniþrepi. Á meðan rúmlega 60% þeirra sem luku stúdentsprófi skólaárið 2021-2022 voru yngri en tvítugir voru rúmlega 60% brautskráðra með sveinspróf 25 ára og eldri og tæpur fjórðungur var 35 ára og eldri, segir í umfjöllun Hagstofunnar.