Bankanum bar að upplýsa Bankasýsluna

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson

Bankasýslan lýsir vonbrigðum með ákvarðanatöku og upplýsingagjöf bankaráðs Landsbankans, varðandi fyrirhuguð kaup bankans á tryggingafélaginu TM frá Kviku.

Þetta kemur fram í opnu bréfi sem Bankasýslan sendir ráðinu nú í kvöld, en annað bréf var ritað og stílað á Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra.

Í bréfinu til bankaráðsins er tekið fram að Landsbankanum beri án tafar að upplýsa hluthafa um öll mikilvæg mál sem upp kunni að koma, eða eru ákveðin af bankanum, og geti haft afgerandi áhrif á rekstur hans og efnahag, samkvæmt samningi milli Bankasýslunnar og stjórnar bankans frá árinu 2010.

Bankasýslan fer með 98,2% hlut í Landsbankanum, fyrir hönd ríkisins.

Óskar eftir greinargerð frá bankanum

„Það er mat BR að tilboð Landsbankans í 100% eignarhlut TM sé þess eðlis að Landsbankanum hafi borið að upplýsa BR um það með skýrum og formlegum hætti og með eðlilegum fyrirvara,“ segir í bréfinu.

„Þar sem það var ekki gert óskar BR eftir því að bankaráð Landsbankans skili stofnuninni greinargerð um ofangreind viðskipti, þar sem m.a. er lýst aðdraganda tilboðsins, framvindu þess og ákvarðanatöku, forsendum og rökum viðskiptanna, skyldum Landsbankans gagnvart BR skv. samningi aðila frá desember 2010 og ákvæðum eigendastefnu ríkisins.“

Bankasýslan óskar þess sérstaklega að gerð verði grein fyrir því hvernig viðskiptin hafi áhrif á áhættu í rekstri bankans og getu hans til arðgreiðslna til hluthafa, eða annars konar ráðstöfunar á umframeiginfé.

Vill að aðalfundi verði frestað

„Þess er óskað að greinargerð þessi verði afhent innan 7 daga frá dagsetningu bréfs þessa.“

Loks er vikið að því að Bankasýslan telji að þessar upplýsingar, sem beðið er um, geti haft mikil áhrif á dagskrá, umræður og niðurstöður fyrirhugaðs aðalfundar bankans á miðvikudag.

Er þess því krafist að bankaráðið fresti aðalfundinum um fjórar vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert