Sævar Breki Einarsson
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir eina stærstu spurninguna í kjölfar eldgossins sem hófst á laugardagskvöld vera hvort sama atburðarás og hefur staðið yfir undir Svartsengi haldi áfram, eða hvort innflæði kviku minnki.
Ef um fjórir rúmmetrar á sekúndu af kviku halda áfram að streyma upp sé líklegast að um fimm til sex vikur verði á milli atburða á Reykjanesskaga.
„Það sem maður horfir núna í er hvernig framhaldið verður. Svo er spurning hvernig flæðið úr dýpra kvikuhólfi í það grynnra verður, hvort það nái jafnvægi og haldist í fjórum rúmmetrum á sekúndu. Ef það gerist þá fáum við svipaða atburðarás og var núna frá síðasta gosi, fimm til sex vikur á milli atburða. Ef innflæði úr dýpra kvikuhólfi heldur áfram að hægja á sér, þá sjáum við fyrir endann á þessu og þá lýkur þessu eftir um tvo mánuði. Þetta eru þessar tvær sviðsmyndir sem eru mögulegar en nú þarf bara að fylgjast með og sjá hvað setur,“ segir Þorvaldur.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.