Mikil brennisteinsmengun í Svartsengi

Helstu verkefni embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum í dag í tengslum við eldgosið verða að fylgjast með framvindu þess, skriðinu á hrauntungunum tveimur og með mengun, sem er mikil núna í Svartsengi.

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. 

Hann segir að vel sé fylgst með brennisteinsmenguninni í samstarfi við Umhverfisstofnun. Ekki séu aðrir inni á svæðinu en þeir sem þurfi nauðsynlega að vera þar. Notast þeir við grímur ef þörf krefur. Þar á Úlfar við verktaka sem eru í vinnu vegna varnargarða við Svartsengi.

Hraunið færst um 13 til 18 metra

Talið er að hraunið sem rennur í suður í átt að Suðurstrandarvegi hafi færst um 13 til 18 metra síðan klukkan 18 í gær. Þar er búið að loka fyrir aðgengi að hraunsporðinum. Um 350 til 450 metrar eru frá honum í Suðurstrandarveg. „Það er talin hætta á að hraunpollar sem eru þarna ofar geti skriðið fram,” greinir Úlfar frá en bætir við að fjölmiðlar geti farið upp á varnargarðana.

Suðurstrandarvegur opinn fyrir viðbragðsaðila

Lágreistur varnargarður var lagður yfir Suðurstrandarveg í gær til að vernda bæinn Hraun en búið er að rjúfa skarð í hann fyrir viðbragðsaðila. Ef útlit er fyrir að hraun renni yfir veginn verður fyllt upp í skarðið.

Hraun úr norðurtungunni rennur yfir Grindavíkurveg. Í bakgrunni sést í …
Hraun úr norðurtungunni rennur yfir Grindavíkurveg. Í bakgrunni sést í Svartsengi á bak við varnargarða sem voru reistir í kringum orkuverið og Bláa lónið. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Spurður kveðst Úlfar hafa áhyggjur af því að hraun renni yfir Suðurstrandarveg, enda eldgos ennþá í gangi. Einnig segir hann stutt í Njarðvíkuræðina frá hrauninu sem rennur í vesturátt en lítil hreyfing er aftur á móti á því hrauni.

Hann segir jafnframt aðspurður að menn séu farnir að huga að því að leggja veg yfir hraunið líkt og áður hefur verið gert til að opna Grindavíkurveg en framkvæmdir við það eru ekki hafnar.

Hættu við löndun 

Hvorki íbúar né fyrirtæki fá að vera í Grindavík vegna eldgossins. Til stóð að landa í Grindavíkurhöfn í morgun en hætt var við það um leið og gosið hófst. Mengunarhætta getur líka orðið ef hraun rennur til sjávar og þá þyrfti að rýma svæðið og því ekki gott að fólk sé í bænum sem stendur.

Úlfar Lúðvíksson og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á fundi í …
Úlfar Lúðvíksson og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á fundi í síðasta mánuði. mbl.is/Árni Sæberg

Þarf tvær flóttaleiðir fyrir Bláa lónið

Svo virðist sem örvænting hafi gripið um sig hjá einhverjum gestum Bláa lónsins þegar það var rýmt á laugardagskvöld vegna eldgossins. 

Spurður hvort forsvaranlegt sé að hafa lónið opið á meðan líkur eru á eldgosi segir hann menn mega velta því fyrir sér hvort rétt sé að vera með þennan fjölda á hættusvæði. „Þetta er stór spurning en við höfum reynt að styðja þennan atvinnurekstur með því að opna þegar við teljum hættuna ásættanlega,” segir Úlfar.

Hann bætir við að Bláa lónið verði ekki opnað aftur fyrr en tvær flóttaleiðir þaðan verði opnar. Því þurfi vegurinn um Grindavíkurveg að vera orðinn fær. Eftir það verði hægt að taka ákvörðun um framhaldið. 

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert