Orkuverið rýmt vegna mengunar

Fimm starfsmenn voru í orkuverinu.
Fimm starfsmenn voru í orkuverinu. mbl.is/Árni Sæberg

Orkuver HS Orku í Svartsengi var í morgun rýmt vegna brennisteinsmengunar frá eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina. Fimm starfsmenn voru á svæðinu þegar ákvörðun um rýmingu var tekin um klukkan hálfellefu.

Þetta staðfestir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi HS Orku, í samtali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá. 

Samkvæmt veðurspá mun vindátt breytast upp úr hádegi og geta starfsmenn hugsanlega snúið aftur þá, að sögn Birnu. Slík ákvörðun verður tekin í samstarfi við almannavarnir og Veðurstofuna.

Ekki ráðlegt að vera á svæðinu

„SO2-gildin voru komin að þeim mörkum að ekki væri talið ráðlegt að vera á svæðinu,“ segir Birna í samtali við mbl.is. „Þetta er eitthvað sem við erum alltaf búin undir.“

Orkuverinu í Svartsengi hefur að öllu jöfnu verið fjarstýrt undanfarna mánuði frá Reykjanesvirkjun HS Orku. Þegar jarðhræringar hófust árið 2021 voru fyrstu skref tekin í átt til þess að hægt yrði að fjarstýra orkuverinu, skyldi eitthvað koma upp á.

„En þetta er auðvitað ekki mannlaust orkuver. Við þurfum að fara að sinna ýmsum tækjum og tólum sem eru partur af daglegri starfsemi orkuversins. Við verðum að geta sinnt fasteignum og búnaði og vélum. Við gerum það þegar við teljum það nauðsynlegt og það var metið svo í morgun.“

Að sögn Birnu er þó engin framleiðsla talin í hættu núna og engin brýn verkefni sem þarf að ráðast í.

„Það er allt með felldu í rekstri orkuversins og hefur verið allar götur síðan þetta tímabil hófst í nóvember.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert