Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir ekki margt ólíkt með þessu gosi og fyrri gosum við Sundhnúkagíga.
Eldgosið sem braust út 18. desember hafi til að mynda varað í um fjóra daga og tekið smá tíma að storkna.
Þorvaldur telur líklegast að gosið klárist einhvern tímann á morgun eða daginn eftir. Það gæti jafnvel dottið niður í nótt, bætir hann við.
Spurður hvers vegna gosið virðist lifa lengur en búist var við í fyrstu segir hann telja að framleiðnin hafi verið ofmetin í byrjun, að hún hafi verið töluvert minni en þessir 400 rúmmetrar á sekúndu sem vísindamenn töluðu um.
Það sé því að taka lengri tíma að tæma úr.
„Þú ert alltaf með sama rúmmálið. Hversu hratt þetta gengur yfir ræðst af því hversu mikið þú ert að taka út á tímaeiningu. Því meira sem þú tekur út í byrjun því fyrr tæmiru það,“ segir Þorvaldur.
Honum sýnist virknin vera að minnka í gosinu og er ósammála Veðurstofunni um að hún sé búin að haldast stöðug frá því í gær.
„Þeir eru að horfa á gosóróann og eru að túlka þetta út frá honum en hann er ekki endilega mælikvarði á það hversu mikið magn er að koma út, eða að minnsta kosti ekki nákvæm mælistika á það.“
Þorvaldur telur að draga sé úr gosinu hægt og rólega sem verður til þess að erfiðara er að átta sig á því hvernig það er að dvína.
„Þetta eru litlar breytingar en ég held það sé frekar að draga úr gosinu. Það sést til dæmis á því að það hefur hægt mjög á framrás hraunsins frá því um hádegi í gær.“
Einnig hefur dregið mjög úr gasmenguninni.
Telur hann hraunið hafa náð kjörlengd. Á meðan staðan helst eins þá fari það rennsli sem er að koma upp núna í að byggja upp hraunið. Það fari þá mest í að bæta þykktina á hrauninu næst gígnum, en ekki bæta í lengdina segir hann.