Virðist ætla að gjósa inn í nóttina

Frá eldgosinu í grennd við Grindavík í gær, sunnudaginn 17. …
Frá eldgosinu í grennd við Grindavík í gær, sunnudaginn 17. mars. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert virðist vera að draga úr gosinu og er staðan óbreytt frá því í dag. Þetta seg­ir Ein­ar Hjör­leifs­son, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Það er í syðsta hluta sprungunnar, skammt frá Sundhnúkagígum rétt austan við Sundhnúk sjálfan, þar sem virðist áfram vera sæmileg virkni.

Áfram kvika sem kemst upp á yfirborðið

„Það virðist áfram vera virkni í þessu núna og virðist einnig ætla að halda eitthvað áfram inn í nóttina,“ segir Einar.

Í fyrstu var búist við því að gosið yrði mun skammlífara. Spurður hvers vegna þetta gos virðist lifa lengur segir Einar að upphaflega hafi verið miðað við gosin á undan. Þetta hagar sér lítillega á annan hátt að hans sögn.

„Það virðist áfram vera kvika sem leitar upp og á auðvelt með að komast til yfirborðs.“

Hraunstraumarnir sem virtust vera að stefna í sjóinn virðast vera að kólna niður. Ef þeir eru á hreyfingu þá hreyfast þeir mjög hægt þessa stundina.  

Hann segir að Veðurstofan muni áfram fylgjast með stöðunni í nótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert