Gert að endurgreiða fyrrverandi skjólstæðingi

Ómar R. Valdimarsson, lögmaður.
Ómar R. Valdimarsson, lögmaður. Ljósmynd/Aðsend

Ómari R. Valdimarssyni lögmanni hefur verið gert af dómstólum að greiða konu sem er fyrrverandi umbjóðanda hans 490 þúsund krónur af 1,1 milljón króna sem hann innheimti í lögmannsþóknun. 

Konan sem um ræðir lenti í umferðarslysi í maí 2020 og leitaði til Ómars til að annast mál sitt og innheimta bætur úr hendi bótaskylds tryggingafélags. 

Tæpum tveimur árum síðar undirritaði Ómar fullnaðaruppgjör við umrætt tryggingafélag fyrir hönd konunnar. Voru heildarbætur samkvæmt fullnaðaruppgjöri rúmar 4.4 milljónir króna, þar af 356 þúsund krónur vegna lögmannskostnaðar.

Las í blöðunum um úrskurð gegn Ómari

Greiddi tryggingafélagið bæturnar inn á fjárvörslureikning Ómars og Esju Legal, lögmannastofu hans, og greiddi Ómar bæturnar inn á reikning konunnar samdægurs að frádreginni lögmannsþóknun sinni upp á 1,1 milljón króna. Greiddi hann því 3,3 milljónir króna inn á reikning konunnar.

Ári eftir uppgjörið kveðst konan hafa lesið í blöðunum að úrskurðarnefnd lögmanna hafi gert Ómari að endurgreiða öðrum skjólstæðingi sínum hluta lögmannsþóknunar og kvað úrskurðurinn á um að endurgjald varnaraðila ætti ekki að nema meira en 75% álag á þóknun tryggingafélagsins til varnaraðila.

Hafði faðir konunnar í kjölfarið samband við Ómar til að inna hann um upplýsingar um uppgjörið í máli dótturinnar og kom þá í ljós að Ómar hafði hagað þóknun sinni með svipuðum hætti og í því máli.

Framvísaði ekki umboði frá konunni

Sendi nýr lögmaður konunnar innheimtuviðvörun á Ómar og Esju Legal þann 20. júní og krafði hann þar um að lögmannsþóknun, sem hefði verið innheimt í máli konunnar, myndi sæta lækkun til samræmis við úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna. Krafist var endurgreiðslu á 490 þúsund krónum.

Kveðst Ómar hafa brugðist við innheimtuviðvörun með því að óska eftir afriti af umboði konunnar til nýja lögmannsins til að ganga úr skugga um að lögmaðurinn hefði umboð til þess að móttaka fjármuni fyrir stefnanda. Lögmaður konunnar hafi ítrekað ekki brugðist við þeirri beiðni. 

Að sögn Ómars hafi hann rætt við lögmann konunnar símleiðis í ágúst og tekið fram að hann væri fús til að greiða höfuðstól kröfunnar en ítrekaði beiðni sína um framvísun umboðs fyrir hönd stefnanda auk þess sem hann mótmælti innheimtukostnaði.

Beiðni Ómars um umboð var ekki sinnt af hálfu stefnanda fyrr en við þingfestingu málsins 16. nóvember er það var lagt fram ásamt öðrum gögnum málsins. 

Ómar bar fyrir sig að nýr lögmaður konunnar hefði ekki …
Ómar bar fyrir sig að nýr lögmaður konunnar hefði ekki framvísað umboði konunnar þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. mbl.is/Eyþór

Hlýtur að hafa haft bankareikningsnúmer konunnar

Dómurinn, sem kveðinn var upp 14. mars, gerði Ómari og Esju Legal að greiða konunni höfuðstól kröfunnar, upp á 490 þúsund krónur, enda hafi hann ekki sett sig upp á móti því. 

Þá segir í niðurstöðu dómsins að Ómar hafi byggt kröfu sína á sýknu um greiðslu  dráttarvaxta á því að um viðtökudrátt af hálfu stefnanda hafi verið að ræða. Hann hafi borið fyrir sig að hann hafi ekki fengið upplýsingar um reikningsnúmer frá konunni sjálfri né sönnun fyrir umboði lögmannsins til að móttaka greiðslu fyrir hennar hönd. 

Segir dómurinn aftur á móti ekki séð af gögnum málsins að Ómar hafi óskað eftir upplýsingum um persónulegt bankareikningsnúmer konunnar við lögmanninn. Hins vegar liggi fyrir að lögmaður konunnar hafi hvatt Ómar til að gera upp við hana beint og láta þá ógreiddan innheimtukostnað. 

„Á hitt ber þá að líta, að stefndi greiddi stefnanda tryggingabætur í apríl 2022 og
hlýtur af þeim sökum að hafa haft upplýsingar um bankareikningsnúmer stefnanda,“ segir í niðurstöðu. 

Hefði verið rétt að framvísa umboði konunnar

Þá er aftur á móti fallist á það með Ómari að lögmanninn konunnar hefði verið rétt að framvísa umboði konunnar til móttöku fyrir hennar hönd, sem hann gerði ekki þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. 

Þá var deilt um hvort Ómar ætti að greiða dráttavexti af kröfunni frá apríl 2022 þegar hann lagði bæturnar inn á konuna, eða frá júlí 2023 þegar mánuður var liðinn frá því að konan krafði hann um endurgreiðslu. 

Var fallist á það síðarnefnda og er Ómari því gert að greiða konunni 490 þúsund krónur auk dráttarvaxta frá 20. júlí 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert