Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að halda áfram greiðslum til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA).
Eins og fram hefur komið stöðvaði utanríkisráðuneytið greiðslur til UNRWA eftir að grunur lék á því að starfsmenn á vegum aðstoðarinnar hafi tekið þátt í hryðjuverkaárás á Ísrael í október.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að gerður hafi varið samningur sem eykur gagnsæi á þeim greiðslum sem fara til UNRWA.
„Undanfarnar vikur hafa ráðherra og fulltrúar utanríkisráðuneytisins átt náið samráð við samstarfsríki, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og við yfirstjórn UNRWA, vegna ásakana um aðild tólf starfsmanna stofnunarinnar að hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael þann 7. október. Ísland hefur tekið virkan þátt, m.a. á fundi með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Áherslur Íslands hafa verið skýrar:
UNRWA hefur heimilað óháðar úttektir á starfseminni, að innra eftirlit verði styrkt og eftirlit aukið með starfsfólki.
Sérstök rannsóknarnefnd hefur verið skipuð af hálfu aðalframkvæmdastjóra SÞ, sem leidd er af fyrrum utanríkisráðherra Frakklands, auk yfirstandandi rannsóknar innra eftirlits Sameinuðu þjóðanna.
Þá hefur UNRWA sett á fót aðgerðahóp um umbætur m.t.t. hlutleysis, ábyrgðarferla og innra eftirlits,“ segir í tilkynningu.
„Á grundvelli þessa hefur fjöldi framlagsríkja tilkynnt að þau muni hefja greiðslur á ný, þ.á.m. framkvæmdastjórn ESB, Danmörk, Svíþjóð, Ástralía og Kanada.
Samhliða framhaldi greiðslna hafa Danmörk og Svíþjóð gert skriflegt samkomulag við stofnunina um að fá allar sömu upplýsingar og framkvæmdastjórn ESB um niðurstöður yfirstandandi úttektar, og að framlög þeirra njóti sömu verndar og framlög ESB ef trúverðugar upplýsingar koma fram sem dregið geta framkvæmd innra eftirlits í efa.
Ísland hefur gengið frá sams konar samkomulagi við stofnunina,“ segir í tilkynningu.
„Samkvæmt rammasamningi Íslands við UNRWA fyrir tímabilið 2024-2028 nemur kjarnaframlag Íslands til stofnunarinnar 110 m.kr. á ári. Undanfarið hefur Ísland auk þess veitt veruleg viðbótarframlög vegna átakanna skv. sérstökum ákvörðunum utanríkisráðherra, m.a. til sjóða Alþjóðabankans til enduruppbyggingar í Palestínu, Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans og Alþjóðlega sakamáladómstólsins auk UNRWA. Ísland hefur einnig lagt viðbótarframlög í Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna, sem úthlutaði samtals 18 milljónum bandaríkjadala til mannúðar- og neyðaraðstoðar á Gaza árið 2023.“
„Vinna síðustu vikna hefur verið algjört grundvallaratriði til þess að við getum haldið áfram að styrkja mannúðaraðstoð í gegnum stofnunina,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. „Við getum aldrei látið almannafé af hendi rakna nema við höfum fulla sannfæringu fyrir því að það renni á rétta staði. Það er samstaða meðal Norðurlandanna um að ótvíræðar umbætur og upplýsingagjöf séu forsenda áframhaldandi stuðnings“.
„Afstaða Íslands til yfirstandandi átaka er og hefur verið skýr um tafarlaust vopnahlé í þágu mannúðar, tafar- og skilyrðislausa lausn gísla Hamas, virðingu við alþjóðalög og óheft aðgengi mannúðaraðstoðar. Rjúfa verður vítahring ofbeldis og átaka, en friðarviðræður á grundvelli tveggja ríkja lausnar eru eina leiðin til stöðugleika á svæðinu,“ segir Bjarni í tilkynningu.