Hreinasta loftið í Evrópu hér

Loftið á Íslandi uppfyllir viðmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
Loftið á Íslandi uppfyllir viðmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland er eitt aðeins sjö landa í heiminum sem stenst viðmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um loftgæði. Hin löndin eru Ástralía, Eistland, Finnland, Grenada, Máritíus og Nýja-Sjáland.  Er Ísland það land í Evrópu þar sem loftgæðin eru mest.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu svissnesku stofnunarinnar IQAir þar sem stuðst er við upplýsingar frá veðurstöðvum í 134 löndum á síðasta ári. Mældar eru svonefndar PM2.5 agnir sem eru minni en 2,5 míkrómetrar að stærð og nægilega smáar til að komast inn í blóðrásina. Um er að ræða banvænstu tegund loftmengunar sem veldur milljónum dauðsfalla á ári hverju.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin setur það viðmið, að fólk eigi ekki að anda að sér meira en 5 míkrógrömmum af þessum ögnum í hverjum rúmmetra af lofti að jafnaði á einu ári.

Mest í Mið- og Suður-Asíu

Mest var loftmengunin í Bangladess, Pakistan, Indlandi, Tadjíkistan og Búrkína Fasó.

Þær tíu borgir, þar sem loftmengun var mest, eru í Mið- og Suður-Asíu. Begusarai á Indlandi var mengaðasta borg heims árið 2023 og raunar voru þær fjórar borgir, þar sem loftmengun er mest, á Indlandi.

Í skýrslunni kemur einnig fram að í fyrsta skipti sé Kanada mengaðasta landið í Norður-Ameríku. Þær 13 borgir í álfunni, þar sem loftmengun er mest, eru allar í Kanada. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert