Teitur Björn: „Það er ámælisvert

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir alrangt að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra hafi ekki brugðist við fréttum af því að Landsbankinn ætli að kaupa allt hlutafé í tryggingafyrirtækinu TM fyrir 28,6 milljarða.

Þá sé að ámælisvert að kaupin hafi verið gerð án þess að upplýsa Bankasýslu ríkisins um þau. 

„Háttvirtur þingmaður Jóhann Páll Jóhannsson sakar hér hæstvirtan fjármálaráðherra um að bregðast ekki við. Þetta er alrangt, herra forseti. Hæstvirtur fjármálaráðherra hefur lýst skoðun sinni um það hver eigendastefna ríkisins er. Hæstvirtur fjármálaráðherra fór fram á það í bréfi til Bankasýslunnar í gær að gerð yrði grein fyrir þessu máli. Bankasýsla ríkisins bregst við og núna er boltinn hjá bankaráði Landsbankans og þá kemur í ljós hvernig á þessu stóð öllu saman,“ sagði Teitur sem kvað sér hljóðs undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. 

Ótækt að ríkið eigi eignarhluti í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði

Teitur sagði jafnframt, að málið drægi einnig fram hversu ankannalegt eða ótækt það væri að ríkið ætti eignarhluti í fyrirtækjum sem væru á samkeppnismarkaði.

„Það er alveg ljóst og það er auðvitað áhyggjuefni, herra forseti, að þessi sala eða kaup Landsbankans á þessum eignarhlut eru gerð án þess að bankaráð upplýsi Bankasýslu ríkisins um þessi kaup. Það er ámælisvert,“ sagði Teitur og bætti við að þessi ráðstöfun væri ekki í samræmi við eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert