„Þú stjórnar ekki landi gegnum Facebook-færslur

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að Þórdís Kolbrún Reykfjörð …
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra gefi þinginu skýrslu um kaupin Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon/Eggert

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að það hafi legið fyrir í átta mánuði að Landsbankinn hefði hug á að kaupa TM og það séu fjórir mánuðir síðan söluferlið hófst.

„Hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra upplýsti um það í hlaðvarpi í byrjun febrúar að henni litist hreinlega ekkert á þessi kaup. Og hvað svo? Það er ekki fyrr en eftir að Landsbankinn hafði lagt fram bindandi kauptilboð og eftir að kauptilboðið hafði verið samþykkt sem fjármálaráðherra bregst við, með Facebook-færslu á sunnudagskvöldi,“ sagði Jóhann Páll í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. 

Jóhann Páll sagði jafnframt, að fjármálaráðherra væri vörslumaður ríkiseigna og bæri ábyrgð á því að meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum væri í samræmi við eigendastefnu ríkisins.

Stefnan á ekki að vera í véfréttastíl

„Eigendastefnan á ekki að vera framkvæmd í einhverjum véfréttastíl með þar sem ráðherra situr og spjallar í einhverju hlaðvarpi og Bankasýslumenn punkta niður hjá sér í fundargerðir það sem þeir heyra. Og þú stjórnar ekki landi gegnum Facebook-færslur,“ sagði hann.

Jóhann Páll bætti við, að fjármálaráðherra þyrfti að koma fyrir Alþingi og útskýra hvað væri í gangi með 29 milljarða viðskipti ríkisfyrirtækis.

„Blekið er varla þornað á áliti umboðsmanns Alþingis um Íslandsbankasöluna þar sem er áréttað sérstaklega að Bankasýslan er ekki sjálfstætt stjórnvald heldur ná yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur ráðherra sannarlega til Bankasýslunnar. Ef það er afstaða ráðherra að kaup ríkisbankans á stóru tryggingafélagi stangist á við eigendastefnu ríkisins þá átti ráðherra að bregðast við eftir þeim heimildum sem hún hefur samkvæmt lögum, tryggja að gripið væri til ráðstafana áður en kaupin færu fram. Það gerði hún ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert