Miðað við vefmyndavélar og óróamælingar Veðurstofu Íslands er staðan á eldgosinu nánast sú sama og í gærkvöldi. Mesta virknin er við suðurenda gossprungunnar, skammt austan við Sundhnúk, þar sem þyrping gíga er.
Að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, rennur áfram dálítið hraun upp úr gígunum. Skjálftavirknin er mjög lítil.
Staðan verður betur greind í birtingu. Fundur verður með svæðisstjórn- og vettvangsstjórn almannavarna klukkan átta í dag. Fólk sem hefur verið á svæðinu í nótt mun þá varpa betra ljósi á gang mála.
Spurður út í gasmengun segir Einar að spáð er 13 til 20 metrum á sekúndu í dag og dregur svo aftur úr vindi í kvöld. Gasmengun mun berast í norðaustur yfir höfuðborgarsvæðið. Hægt er að fylgjast með á loftgaedi.is hvort hún mælist í óhollum gildum.