Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og fyrrverandi borgarstjóri, var án ráðningarsamnings allan sinn tíma sem borgarstjóri. Aldrei var gerður ráðningarsamningur við hann heldur einungis gert svokallað ráðningarbréf.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, vakti athygli á málinu.
„Forsaga málsins er sú að í upphafi kjörtímabils kalla ég eftir afriti af ráðningarsamningi borgarstjóra, sem þá var Dagur B. Eggertsson. Þá var fátt um svör og ég ítrekaði beiðnina,“ segir Hildur.
„Eftir langa mæðu fékk ég loks afrit af ráðningarbréfi sem gert var við hann á kjörtímabilinu á undan og fékk þau svör að það ætti að gilda áfram.“
Hún segir skýringarnar hafa verið sérkennilegar, enda hljóti ný borgarstjórn að gera nýjan samning við borgarstjóra.
Í 2. mgr. 54. gr. sveitastjórnarlaga nr. 138/2011 segir að sveitarstjórn skuli gera skriflegan ráðningarsamning við framkvæmdastjóra þar sem starfskjör hans eru ákveðin.
„Svo tek ég eftir þegar nýr borgarstjóri tekur við að þá er svokallað ráðningarbréf lagt fyrir okkur í borgarráði, ekki til samþykktar.“
Í kjölfarið gerir Hildur athugasemd við það og kallar eftir því að ráðningarsamningur sé gerður.
„Stjórnsýslan er að minnsta kosti verulega ámælisverð og kannski birtingarmynd af mörgu öðru sem gengur á í borgarkerfinu,“ segir Hildur og bætir við að sú vinna hafi verið viðhöfð að embættismenn semdu við borgarstjóra um laun. Það sé mjög öfugsnúið og ekki í samræmi við lög.
Eftir situr einnig spurningin um hvaða réttindi fyrrverandi borgarstjóri hefur varðandi kaup og kjör og annað, bætir Hildur við.
Á borgarstjórnarfundi í gær var ráðningarsamningur núverandi borgarstjóra lagður fram til samþykktar.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, lagði samninginn fram og gerði grein fyrir því að hann væri kunnuglegur en engar breytingar hafa verið gerðar á samningnum síðan Jón Gnarr var borgarstjóri. Hann sat í borgarstjórastól til 2014.
Á fundinum benti Hildur á að upprunalega hefði staðið til að leggja einungis fram svokallað ráðningarbréf til upplýsingar. Sjálfstæðismenn hefðu þá bent á að það væri ekki í samræmi við sveitarstjórnarlög.
Þórdís Lóa sagði ábendingu Hildar vera rétta og að ekki hefði verið gerður samningur um margra ára skeið.
Laun borgarstjóra Reykjavíkur eru 2.477.850 krónur á mánuði.