Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að skoða hvers konar uppbygging atvinnuvega sé góð fyrir lífsgæði þjóðarinnar. Hann segir skorta langtímahugsun og setur spurningamerki við það vaxtarlíkan sem uppgangur ferðaþjónustunnar hefur skapað.
Þetta er meðal þess sem Ásgeir segir í samtali við mbl.is í kjölfar fundar peningastefnunefndar í morgun, en nefndin tilkynnti um óbreytta stýrivexti, og vísaði meðal annars í háa verðbólgu sem hefur verið keyrð upp af miklum hagvexti undanfarinna ára.
„Hvernig rímar 20% hagvöxtur og gríðarleg verðbólga við kjör íslensks almennings? Þó það hljómi vel í einhverju hagfræðimáli að flytja inn vinnuafl, þá má ekki gleyma því að vinnuafl er fólk. Það er fólk sem á börn og vill menntun og svo framvegis.
Það er því mjög flókið fyrir þjóðfélög að reka sig áfram með þessum hætti, það er með því að flytja endalaust inn af láglauna vinnuafli og ætla sér jafnframt að reka gott samfélag,“ sagði Ásgeir. Hér vísar hann einkum til hluta ferðaþjónustunnar í hagvexti undanfarinna ára og bætir við:
„Ef ég lít til framtíðar þá tel ég ferðaþjónustu ekki verða jafn leiðandi atvinnugrein og verið hefur. Við þurfum líka að hugsa sem þjóð að hoppa ekki á alla möguleika, heldur að velja þá bestu úr.
Þar held ég að vanti aðeins upp á langtímahugsun, hvað við ætlum okkur að gera. Vaxtarlíkan, sem byggir á því að flytja inn fólk til þess að vinna láglaunastörf, er ekki gott. Það veldur miklum þrýstingi á innviði, líkt og fasteignamarkað og menntakerfið.“
Þegar Ásgeir er spurður hvað greini Ísland frá öðrum Evrópuþjóðum þegar kemur að því að rétta úr kútnum eftir heimsfaraldur svarar Ásgeir: „Ég tel að stór hluti verðbólgunnar í Evrópu sé komin til vegna kerfisbreytinga. Eftir að járntjaldið hrundi upp úr 1990, þá hefur mjög ódýrt vinnuafl flætt inn í Vestur-Evrópu frá Austur-Evrópu. Á sama tíma hafa verið fluttar inn mjög ódýrar vörur frá Kína.
Hagvöxtur hefur að einhverju leyti verið rekinn áfram á þessu. En þetta er líklega búið núna. Það er ekki mikið meira atvinnuafl að sækja í fyrrum austantjaldslöndum, þau lönd vantar sjálf vinnuafl núna.“
Ásgeir gefur frekari skýringar á breyttu umhverfi. „Svo er alþjóða viðskiptaumhverfið með þeim hætti að við erum ekki að sjá vörur flæða með sama hætti og áður. Við sjáum það í nágrannalöndum að raunvextir eru að verða mjög jákvæðir, en á sama tíma er nær enginn hagvöxtur. Þar get ég nefnt Svíþjóð, Frakkland, Þýskaland og fleiri. Á sama tíma er þar skortur á vinnuafli í þjónustu, vegna þess að fólk er ekki að koma þangað lengur.“
Af ofangreindum ástæðum sem Ásgeir nefnir telur hann að verðbólgan nú geti orðið þrálát og að vextir geti haldist háir til framtíðar.
„Við erum að fara að sjá kerfisbreytingar að þessu leyti og því má ímynda sér að þessi verðbólga verði þrálát. Það hefur verið erfitt að auka lífskjör fólks á sama tíma í Evrópu. Við gætum líka verið að horfa upp á miklu hærri vexti þar sé litið til framtíðar.“
Ásgeir telur íslenskt hagkerfi um margt vera ólíkt öðrum Evrópulöndum og réttast væri að líta vestur um haf til að fá nákvæmari samanburð.
„Ísland er hins vegar á svipuðum stað eins og Bandaríkin, og löndin tvö eru mjög lík til dæmis ef litið er á fasteignarverð. Fasteignaverð hefur lækkað nær alls staðar í Evrópu, en það er ekki reyndin í Bandaríkjunum og á Íslandi. Löndin tvö eru rekin áfram á innflutningi fólks og þensluhagvexti.“
Ásgeir greinir jákvæð teikn í hagvexti undanfarinna ára, þar sem frumkvöðlastarfsemi hefur náð að þrífast hér, þrátt fyrir mikinn vöxt í stórum greinum.
„Það eru ýmsar ástæður hvers vegna við vöxum. Það er mikið af náttúruauðlindum hérna, sem nýtast meðal annars í ferðaþjónustu. Og nú er orkan orðin miklu meira virði. En á sama tíma hefur okkur tekist að byggja upp þjóðfélag þar sem er frumkvöðlastarfsemi. Við búum því við hagvaxtarhvetjandi kerfi. Af þeim sökum er Ísland miklu sambærilegra við Bandaríkin heldur en Evrópu.“