Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur ekki útilokað að eldgosið við Sundhnúkagígaröðina geti varað í nokkra mánuði ef raunin er sú að kvika streymi nú úr dýpra kvikuhólfinu og upp á yfirborð. Atburður á borð við jarðskjálfta gæti þó stöðvað eldgosið fyrr.
Önnur sviðsmynd sé að grynnra kvikugeymsluhólfið undir Svartsengi sé enn að tæma sig. Það sé þá að gerast yfir lengra tíma en í síðustu þremur eldgosum á Reykjanesskaganum.
Ef gosið stendur þó yfir í lengri tíma gæti það haft slæmar afleiðingar í för með sér fyrir innviði á svæðinu.
Mun það líklega skýrast á næstu dögum hvort kvika sé raunverulega að koma úr dýpra kvikuhólfinu. Þá gætu mælingar á efnasamsetningu kvikunnar einnig leitt það í ljós.
Eldgosið sem hófst á laugardag er nú orðið lengra en þrjú síðustu gosin í yfirstandandi goshrinu. Talsverð virkni virðist áfram vera við eldstöðina og flæðir kvika nú úr sjö til átta gígum.
Landrisið virðist hafið á ný við Svartsengi en þó hægara en áður. Að sögn Þorvaldar getur það verið merki um að kvika streymi nú beint úr dýpra kvikugeymsluhólfinu, í gegnum grynnra kvikuhólfið, og upp á yfirborð.
„Hæga landrisið er að benda til þess að meginþorrinn af þeirri kviku sem er að renna inn haldi áfram upp gossprunguna.“
Ef svo er ætti kvikan sem kemur nú upp að vera frumstæðari en kvikan sem kom upp laugardagskvöld, eða ríkari í magnesíum, þar sem annar þrýstingur og hitastig er í grynnra kvikuhólfinu. Gætu mælingar á efnasamsetningu skorið úr um hvað sé raunverulega að eiga sér stað.
„Þá erum við að horfa á svipaða stöðu og í Geldingadalagosinu. Þá var líka lág framleiðni, stöðugt flæði úr dýpra geymsluhólfinu. Ef það er raunin gætum við verið að horfa á eitthvað sem gæti staðið yfir í vikur eða mánuði,“ segir Þorvaldur.
„Það gætu verið breytingar á kerfinu, en við vitum það ekki fyrir víst.“
Þorvaldur bendir á að þó framleiðni sé lág þá gæti hraunið dreift mikið úr sér, standi gosið lengi yfir líkt og í Geldingadölum.
Í ljósi þess að gossprungan er ekki langt frá Svartsengi og Grindavík gæti ógn steðjað að innviðum, raungerist það.