Spáð er hvassri norðaustanátt og snjókomu á Vestfjörðum í kvöld. Í nótt bætir í vind og ofankomu og verður stórhríð þar á morgun.
Þetta kemur fram í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Gul viðvörun tekur gildi á Vestfjörðum klukkan 20 í kvöld og verður hún í gildi í sólarhring.
Á Ströndum og Norðurlandi vestra verður gul viðvörun í gildi frá klukkan 8 í fyrramálið til miðnættis sama dag.
Veðurspáin í dag er á þann veg að suðlæg- eða breytileg átt verður og 5-15 metrar á sekúndu. Stöku él verða og hiti um eða undir frostmarki, en hlýnar sunnanlands í dag með rigningu eða slyddu. Gengur í austan og suðaustan 10-18 m/s síðdegis með snjókomu á köflum um landið norðanvert, en lægir suðvestan til undir kvöld.
Norðaustan 18-25 m/s verða á norðvestanverðu landinu á morgun, annars verður mun hægari vindur. Snjókoma eða slydda verður norðan til, sums staðar talsverð ofankoma, en rigning eða slydda með köflum sunnan- og austanlands. Hiti verður á bilinu 0 til 6 stig. Snýst í norðan og norðvestan 15-23 m/s annað kvöld og kólnar.