Óbreyttir stýrivextir „umtalsverð vonbrigði“

Vilhjálmur segir að ákvörðun peningastefnunefndar komi sér á óvart.
Vilhjálmur segir að ákvörðun peningastefnunefndar komi sér á óvart. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það eru „umtalsverð vonbrigði“ að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafi ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%.

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, í samtali við mbl.is.

„Núna liggur fyrir að við erum búin að ganga frá kjarasamningum til langs tíma, til fjögurra ára. Stór hluti vinnumarkaðarins er nú þegar búinn að því og ekki bara það heldur fórum við í rauninni í einu og öllu eftir því sem Seðlabankinn hefur verið að tala um, að semja með hófstilltum hætti,“ segir Vilhjálmur.

Heldur í vonina um að vextir muni lækka fljótlega

Hann kveðst hafa átt von á því að peningastefnunefnd myndi lækka stýrivexti eitthvað, þó ekki nema um 0,25% til að sýna að óvissu um lausa samninga á vinnumarkaði væri eytt. Vilhjálmur segir að Seðlabankinn hafi ítrekað borið það fyrir sig að samningar væru lausir og því óvissan of mikil fyrir vaxtalækkanir.

„Nú hafa þeir ekki þennan rökstuðning lengur og því kemur mér þessi ákvörðun á óvart. Ég ætla samt að halda í þá von að við munum sjá vexti lækka hér skarpt á komandi mánuðum. Það þýðir ekki að gefast upp við fyrstu ákvörðun peningastefnunefndar, en hún veldur mér vonbrigðum.“

Hefði lagt til 0,50% lækkun með fyrirvara

Finn­björn A. Her­manns­son, for­seti Alþýðusam­bands Íslands, sagði í sam­tali við mbl.is fyrr í dag að ákvörðun peningastefnunefndar væri skiljanleg. Vísaði hann meðal annars í lausa samninga hjá starfsmönnum hins opinbera og að Seðlabankinn væri að ýta undir það að opinberi markaðurinn myndi fylgja þeirri launastefnu sem almenni vinnumarkaðurinn væri búinn að marka.

Spurður hvort að hann taki undir þessa útskýringu segir Vilhjálmur að hann teldi þá frekar eðlilegra að lækka vexti.

„Ef ég hefði setið í peningastefnunefnd Seðlabankans þá hefði ég farið í þveröfuga átt. Ég hefði lagt til lækkun á stýrivöxtum upp á 0,50 punkta með þeim fyrirvara að þetta verði launastefnan sem síðan muni gilda fyrir allan vinnumarkaðinn,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert