„Við höfum svo sem oft heyrt umræðuna um misnotkun ópíóíða og það var kannski í byrjun árs í fyrra sem umræðan var mikil og okkur fannst við sjá og heyra misvísandi upplýsingar.“
Þetta segir Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslu- og lögfræðisviðs Ríkisendurskoðunar, í samtali við mbl.is um nýútkomna skýrslu stofnunarinnar um ópíóíðafíkn á Íslandi.
Jarþrúður segir að í kjölfarið hafi verið ákveðið að ráðast í úttekt á málaflokknum sem þó hafi verið með örlítið ólíkum formerkjum miðað við þegar litið er til hefðbundinna úttekta Ríkisendurskoðunar. „Við köllum þetta hraðúttekt, hún er unnin á styttri tíma og miðar í raun bara að því að vera upplýsandi og koma fram með staðreyndir án þess að við séum endilega að leggja mat á þær staðreyndir,“ útskýrir hún.
Eitt af því sem úttektin hafi leitt í ljós var skortur á heildaryfirsýn, enginn hafi yfirsýn yfir þann fjölda fólks sem glímir við ópíóíðafíkn á Íslandi eða hvernig vandinn hafi þróast.
„Þetta er hver að skoða með eigin nefi og sem dæmi, þótt andlátstölur séu kannski ekki góður mælikvarði á rauntímaþróun vandans, segja þær okkur ákveðna sögu. Mismunandi aðferðafræði við greiningu á andlátsorsök gefur misvísandi tölur, annars vegar úr dánarmeinaskrá og hins vegar frá lögreglunni,“ heldur Jarþrúður áfram.
Hins vegar hafi berlega komið í ljós meðan á úttektinni stóð að klárar vísbendingar væru fyrir hendi um að vandinn væri vaxandi, allir vísar væru þar á uppleið, svo sem fjöldi þeirra sem sækja sér meðferð og fjöldi þeirra sem leita til Landspítalans.
„Og aukning í haldlögðu magni við innflutning. Það sem hefur kannski helst farið niður á við eru lyfjaávísanir enda er búið að gera gangskör í að þrengja að þeim,“ segir Jarþrúður og svarar því aðspurð að magn ópíóíðalyfja sem hald var lagt á við komu til landsins hafi verið 30.000 stykki í fyrra og langmest komið með flugi.
„Þeir sem við töluðum við vilja ekki tala um að þetta falli undir faraldur, það er að segja faraldsfræðilega skilgreiningu á því, en það er alveg klárt mál að þessi vandi er að aukast og menn þurfa að fara að grípa í taumana, setja sér stefnu og svo framvegis,“ segir sviðsstjórinn.
Hvað með samanburð við önnur efni, þessi hefðbundnu fíkniefni til dæmis, amfetamín, kókaín og svo framvegis?
„Við skoðuðum ekki aðrar tegundir, í upphafi var tekin ákvörðun um að einblína á ópíóíðalyfin af því að það hefur verið svo mikið í umræðunni undanfarið að þetta sé að aukast svo mikið, en á sama tíma hafa upplýsingarnar verið misvísandi og þess vegna ákváðum við að skoða þennan hluta,“ svarar hún.
Aðspurð segir Jarþrúður viðbrögð við skýrslum Ríkisendurskoðunar almennt góð, „við fylgjum að jafnaði skýrslunum okkar eftir að þremur árum liðnum og athugum hvort eitthvað hafi verið að gert, en við erum aðeins að færa okkur yfir í að fylgja þeim eftir fyrr, jafnvel nokkrum mánuðum eða einu ári síðar, en alla jafna taka stjórnvöld vel í það sem við erum að benda á og grípa til aðgerða. Auðvitað kemur það þó í einhverjum tilvikum fyrir að svo er ekki,“ segir hún.
Heilbrigðisráðuneytið hafi nú sett á laggirnar starfshóp til að móta stefnu í málaflokknum, „en við erum auðvitað bara að brýna þá til að klára það sem fyrst, það lítur út fyrir að ráðuneytið sé í einhverri vegferð að bregðast við þessu nú þegar og við bara fylgjumst með því“.
Jarþrúður segir hlutverk Ríkisendurskoðunar vera að benda á hvað megi laga og svo sé það hlutverk hverrar stofnunar að vinna úr því í framhaldinu. Engin sérstök tímamörk séu þó sett en flestir í stjórnkerfinu viti að Ríkisendurskoðun fylgi sínum málum eftir og geri svokallaðar eftirfylgniúttektir.
Aðspurð segir Jarþrúður miklar breytingar hafa orðið á starfsemi Ríkisendurskoðunar undanfarin ár og vilji þar hafi staðið til þess að opna betur fyrir umræðu um hvað stofnunin sé að fást við. Í sumum tilvikum fái stofnunin beiðnir um úttektir, einkum frá Alþingi enda er Ríkisendurskoðun eftirlitsstofnun á vegum þingsins. Þær beiðnir komi þá gjarnan frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd auk þess sem níu þingmenn geti tekið sig saman og lagt fram beiðnir.
„En svo erum við líka með allan ríkisgeirann undir og þurfum bara að meta hvað þurfi að skoða og það getur verið ýmislegt sem kveikir á slíku. Það getur verið ábending sem við fáum, eitthvað sem við rekumst á í annarri úttekt sem við erum að gera, eitthvað sem kemur fram í fjárhagsendurskoðun eða bara eitthvað í umræðunni eins og í þessu tilviki,“ segir Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslu- og lögfræðisviðs Ríkisendurskoðunar, að lokum.