Saknar aðkomu þjóðarinnar

Margar sífrerarústir sem voru í Þjórsárverum virtust vera horfnar, sagði …
Margar sífrerarústir sem voru í Þjórsárverum virtust vera horfnar, sagði dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði, í samtali við Morgunblaðið fyrir um áratug. Taldi hún ljóst að rústirnar væru þá á sínum loftslagsmörkum og búast mætti við að ekki þyrfti mikla hækkun á lofthita til að þær féllu saman í stórum stíl. mbl.is/RAX

Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, gerði framkvæmda- og málsmeðferðartíma að umræðuefni sínu í málstofu um rammaáætlun í orkumálum í gær og hvatti til þess að grundvöllur leyfisveitingakerfisins yrði endurskoðaður, ekki látinn standa óbreyttur.

„Ég velti því fyrir mér hvort ekki þurfi að byrja á að greina allt kerfið, frá tillögu til framkvæmdaleyfa,“ sagði Aðalheiður. Það væri nauðsynleg forsenda allra breytinga. „Ef við skiljum ekki hvernig kerfið virkar en ætlum endalaust að byggja á því er eitthvað í ólagi.“

„Ef metið er rétt að fórna náttúru tiltekins svæðis fyrir …
„Ef metið er rétt að fórna náttúru tiltekins svæðis fyrir orkunýtingu, er þá ekki rétt að hámarka hve mikil orka fæst frá því svæði?“ spurði Ásdís Hlökk í málstofunni. Ljósmynd/Unnur Karen

Skoða þyrfti stöðuna í Noregi betur, Norðmenn hafi verið búnir að greina vatnasviðin árið 2016 svo þar hafi kannski ekki verið nauðsynlegt að halda vinnunni áfram. „Ég held að umboðið sé of þröngt hér á landi og velti fyrir mér hvort kerfið sé réttlætanlegt,“ sagði prófessorinn og benti á að um viðkvæmt pólitískt mál væri að ræða, það hefði komið fram í fyrri framsögum.

Komið að því að leggja kerfið niður?

„Eru þær breytingar sem hafa verið gerðar á elleftu stundu, hjá ráðherra og þinginu, faglegar? Hverfur öll þessi mikla vinna bara, er réttlætanlegt á þessum tíma að hafa þetta með þessum hætti?“ spurði hún enn fremur.

Þá gerði hún þröngt gildissvið laganna að umfjöllunarefni, í þeim væri samræmingarkrafa til sveitarfélaga. Sveitarfélög gætu hins vegar frestað ákvörðun, væri það heppilegt?

Virkjunin í Svartsengi á Reykjanesskaga. „Í fullkomnum heimi myndum við …
Virkjunin í Svartsengi á Reykjanesskaga. „Í fullkomnum heimi myndum við gera landskipulag áður en land byggist, við myndum skoða land með tilliti til þess hvers það hentar,“ sagði Stefán Gíslason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalspurninguna kvað Aðalheiður hins vegar þá hvort ekki væri komið að því tímamarki að leggja núverandi kerfi niður. Þá þyrfti þó eitthvað að koma í staðinn, til dæmis væri unnt að bæta heimildarlög leyfisveitinga töluvert.

„Varðandi umhverfismat og leyfisveitingar erum við með tvískipt kerfi,“ benti hún á og sagði komið að því að skoða mjög alvarlega hvort ekki væri tímabært að taka upp norska kerfið og notast við eitt kerfi.

Stjórnmálamenn hikandi og tregir

Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, aðjúnk við HÍ og fyrrverandi forstjóri Skipulagsstofnunar, spurði hvort rammaáætlun væri til þess fallin að greiða úr ágreiningi og rifjaði upp fræga ásteytingarsteina, svo sem baráttu Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti fyrir verndun Gullfoss og fleiri fossa á sínum tíma.

Ekki væri að sjá að rammaáætlun hefði tekist að greiða úr ágreiningi. „Markmið laganna er ekki að nýta eigi alla virkjanlega orku í landinu, en það er í reynd það sem rammaáætlun gerir,“ sagði Ásdís. Þannig væri aðferðafræði áætlunarinnar ekki endilega í samræmi við tilgang laganna.

Daði Már Kristófersson hagfræðiprófessor efar að landskipulag Hjörleifs og Ingólfs …
Daði Már Kristófersson hagfræðiprófessor efar að landskipulag Hjörleifs og Ingólfs hefði átt mjög vel við í dag. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Stjórnmálamenn hefðu verið hikandi og tregir við að taka tillögur verkefnisstjórnar til afgreiðslu, ein tillagan hefði verið afgreidd á Alþingi sex árum eftir að hún var lögð fram. Forsendur kynna að breytast og greining að úreldast.

„Hvað á að gera ef umhverfisáætlun og skipunarferli leiðir í ljós sterk rök til að virkja ekki á viðkomandi stað?“ spurði Ásdís og í framhaldinu hvort rammaáætlun leiddi af sér bestu skipun á hagnýtingu auðlinda.

Samanburður epla og appelsína

„Ef metið er rétt að fórna náttúru tiltekins svæðis fyrir orkunýtingu, er þá ekki rétt að hámarka hve mikil orka fæst frá því svæði?“ spurði hún enn og einnig hvort eðlilegt teldist að erlendir aðilar réðu því alfarið hvaða svæði landsins skyldu nýtt til orkuvinnslu.

Einnig spurði Ásdís hvort og hvernig rammaáætlun tækist á við eignarhald virkjana og ráðstöfun orkunnar. Hér gæti leikurinn verið ójafn, á landinu væru fyrirtæki í einkaeigu sem samfélagseigu.

Sagði hún málið í heildina snúast um spurningu um samanburð á eplum og appelsínum. Gríðarlegur munur væri á tegundum virkjana, vatnsaflsvirkjanir væru mjög skilvirkar, jarðvarmi óskilvirkur og vindorka óstöðug. „Hvernig ætlum við þá að fara með aðrar tegundir orkuvirkjana sem fram eru að koma?“ spurði hún.

Lokaorð Ásdísar: „Við skulum gæta þess að kasta rammaáætlun ekki á glæ án þess að betri valkostur sé í boði.“

Í fullkomnum heimi...

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur og fyrrverandi formaður þriðja áfanga rammaáætlunar, tók næstur til máls í erindi sínu „Hvers vegna rammaáætlun?“

Sagði Stefán fjölþáttagreiningu besta fáanlega grunninn sem fyndist til að stjórnvöld gætu tekið upplýsta ákvörðun, ekki dygði að einblína bara á einhvern einn kost. Þess í stað þyrfti að leggja mat á marga þætti, berggrunn, örverur, fiska, fugla og fleira á hverju svæði.

Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor velti því fyrir sér hvort ekki þyrfti …
Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor velti því fyrir sér hvort ekki þyrfti að byrja á að greina allt kerfið frá a til ö. Ljósmynd/Aðsend

„Stjórnmálamönnum á að finnast eitthvað, það er þeirra hlutverk,“ sagði Stefán. Pólitíska valdið lægi hjá ráðherra og Alþingi en þegar upp væri staðið gilti bara eigin sannfæring. „Við getum ekki tekið fram í fyrir þessu ferli,“ sagði Stefán. „Við getum og þurfum að tryggja eins og hægt er að ákvarðnir sem stjórnmálamenn taka séu byggðar á eins góðum gögnum og hægt er.“

Stjórnmálin ættu hins vegar ekkert erindi inni í rammaáætlun, þar ættu fagmenn að vera að störfum. „Í fullkomnum heimi myndum við gera landskipulag áður en land byggist, við myndum skoða land með tilliti til þess hvers það hentar. Við bara byrjum allt of seint í þessari vinnu, löngu eftir að heimurinn hætti að vera fullkominn,“ sagði Stefán af gangi mála.

Talað hefði verið um að kerfið væri seinlegt og þungt í vöfum. „Eitthvað klikkaði, faglega ferlið eða pólitíska ferlið,“ sagði hann og benti á sömu tillögu og Ásdís á undan honum sem tilbúin hefði verið árið 2016 en samþykkt á þingi 2022. „Ætla menn að kenna árinni um þótt róðurinn gangi illa?“ spurði Stefán að lokum.

Listi yfir áhrifaþætti aldrei stöðugur

Síðastur á mælendaskrá var Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við HÍ, með erindið „Rammaáætlun, barn síns tíma?“

„Við eigum að virkja ef ábatinn af því að virkja er meiri en kostnaðurinn við það. Ég get ekki sagt að rammaáætlun svari þessari spurningu. Raunar er hennar ekki spurt,“ sagði prófessorinn.

Vafasamt væri að taka flókið fyrirbæri, skrifa upp kosti þess og galla og taka svo ákvörðun út frá þeim þáttum einangruðum. Forsendur ákvarðana sem væru orðnar einhverra ára gamlar væru orðnar úreltar að sögn Daða sem svo svaraði sýn Stefáns um hinn fullkomna heim: „Ég er ekki viss um að landskipulag Hjörleifs og Ingólfs hefði átt mjög vel við í dag.“

Listi yfir áhrifaþætti yrði aldrei stöðugur um alla framtíð. „Er vilji þjóðar, sem er ekki byggður á mati á eiginleikum, marktækur?“ spurði Daði. „Er hægt að taka hluti og greina eiginleika þeirra, leggja þá svo saman og fá einhverja útkomu?“ spurði hann enn.

Á endanum hlyti að þurfa að taka afstöðu til þess hvað vernda skyldi og það hlytu að vera svæði, ekki eiginleikar virkjana. „Er rammaáætlun höggvin í stein? Þarf ekki að fara fram endurskoðun á henni eftir því sem þarfir þjóðarinnar breytast?“ spurði Daði.

Kvaðst hann að lokum sakna víðtækari aðkomu þjóðarinnar að ferlinu sem ætti ekki bara að vera ákvörðun sérfræðinga og kallaði að lokum eftir heildarmati.

„Ég er ekki alveg viss um að rammaáætlun sé rétta verkfærið,“ sagði Daði Már Kristófersson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka