Sala á verðmætri fasteign dæmd ólögmæt

Frá málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir skemmstu.
Frá málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir skemmstu. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ógilt þrjár ákvarðanir sem teknar voru á aðalfundi MÍR sumarið 2022. Kjör stjórnar félagsins er ógilt og jafnframt sú ákvörðun að selja húsnæði félagsins að Hverfisgötu 105 í Reykjavík og láta andvirði sölu fasteignarinnar mynda stofnfé Menningarsjóðs MÍR.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun af Ingiríði Lúðvíksdóttur. Segir í dóminum að boðun aðalfundar MÍR hafi ekki uppfyllt það skilyrði að allir félagsmenn hafi átt kost á að vita af fundinum.

„Að mati dómsins braut aðferðin við boðun til aðalfundar gegn meginreglu félagaréttar um jafnræði félagsmanna og því var fundarboðunin ekki lögmæt,“ segir meðal annars í dóminum en eins og komið hefur fram í fréttum mbl.is og Morgunblaðsins var boðað til fundarins með auglýsingu í glugga húsnæðis félagsins. „Því var ekki hægt að taka lögmætar ákvarðanir á fundinum sem væru bindandi fyrir félagið og félagsmenn.“

Mikla athygli vakti þegar málið kom upp á síðasta ári en eins og kom fram í Morgunblaðinu höfðuðu þrír félagsmenn í MÍR, Menningartengslum Íslands og Rússlands, áður Ráðstjórnarríkjanna, mál gegn samtökunum og kröfðust þess að ákvarðanir aðalfundar yrðu ógiltar. Á fundinum, sem haldinn var 26. júní 2022, var tekin ákvörðun um að hætta rekstri félagsins, afhenda allar eignir félagsins sjálfseignarstofnunni „Menningarsjóðnum MÍR“, og að selja húsnæði félagsins á Hverfisgötu en söluandvirðið á að mynda stofnfé umrædds menningarsjóðs.

MÍR var stofnað árið 1950 og var Halldór Laxness fyrsti forseti félagsins og Þórbergur Þórðarson varaforseti. Félagið var aðalvettvangur menningarlegra samskipta Íslands og Rússlands um áratugaskeið og var með ýmsa menningardagskrá á blómatíma sínum. Ívar H. Jónsson og kona hans, Ragnhildur Rósa Þórarinsdóttir, stóðu að stefnunni ásamt listakonunni Kjuregej Alexöndru Argunovu. Ívar var sem kunnugt er formaður MÍR í rúma fjóra áratugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert