Segir starfslok Geirs hafa legið í loftinu

Friðrik Sigurbjörnsson er oddviti Sjálfstæðismanna sem eru í minnihluta í …
Friðrik Sigurbjörnsson er oddviti Sjálfstæðismanna sem eru í minnihluta í bæjarstjórn í Hveragerði.

Friðrik Sigurbjörnsson, oddviti sjálfstæðismanna í Hveragerði, segir að starfslok Geirs Sveinssonar sem bæjarstjóra í Hveragerði komi ekki á óvart. Ýmis verkefni hafi ekki gengið sem skyldi. 

Meirihluti bæjarstjórnar samanstendur af Okkar Hveragerði og Framsóknarflokki.  

„Það kom á óvart að fá skyndilegt fundarboð í morgun klukkan átta og sjá að það væri einungis eitt mál á dagskrá sem var starfslokasamningur við bæjarstjóra. Hins vegar kemur þetta ekki óvart í þeim skilningi að það voru ýmis teikn á lofti um að þetta lægi í loftinu,“ segir Friðrik. 

Friðrik segir að stirð samskipti við félagasamtök í sveitarfélaginu, málefni skólphreinsistöðvarinnar, samskipti við heilbrigðiseftirlitið og leikskólamál séu þau mál sem Geir hefur verið gagnrýndur fyrir. 

Spurður segir hann fjárhagsmál sveitarfélagsins ekki endilega þáttur í ákvörðuninni. 

„Þetta er samansafn af alls konar málum sem komið hafa upp hjá sveitarfélaginu sem bæjarstjórinn og meirihlutinn hafa ekki ráðið við,“ segir Friðrik.  

Bæjarstjórnarfundur verður á föstudag þar sem nánar verður farið í ástæður starfslokanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert