Þrjú korter og þrír mánuðir: „Ekki eðlileg vinnubrögð“

Hilmar segir ýmsar úrbætur lagðar til sem ekki myndu viðgangast …
Hilmar segir ýmsar úrbætur lagðar til sem ekki myndu viðgangast undir hefðbundnum kringumstæðum. Samsett mynd/Aðsendar

„Manni finnst eitthvað vera gruggugt þarna,“ segir Grindvíkingurinn Hilmar Freyr Gunnarsson um ástandsskoðunarskýrslu Náttúruhamfaratryggingar Íslands á híbýlum Grindvíkinga.

Kveðst Hilmar, sem sjálfur er menntaður byggingarfræðingur og húsasmíðameistari, ósáttur við óeðlileg vinnubrögð matsaðila og segir skýrsluna ófaglega.

Hilmar furðar sig á skoðun verkfræðistofu á vegum NTÍ sem hafi komið og framkvæmt ástandsskoðun á heimili hans á innan við 45 mínútum en tekið þrjá mánuði til að gera skýrslu. 

Veggur á heimili Hilmars.
Veggur á heimili Hilmars. Ljósmynd/Aðsend

Ekki hægt að mynda þessi álit á 45 mínútum

Á þeim skamma tíma hafi þeim tekist að mynda sér skoðanir á burðarvirki hússins og hvaða framkvæmdir þurfi að gera á því en Hilmar segir þær tillögur ekkert annað en „fúskviðgerðir“.

„Þú getur ekki komið inn í 40-45 mínútna sjónskoðun og myndað þér þessi álit. Það er ekki hægt.“

Spurður hvernig slík skoðun myndi líta út í eðlilegum kringumstæðum segir Hilmar það alla vega taka rúman dag í vinnu.

„Það þarf að fara í frekari skoðun. Það þarf að opna inn í byggingarhluta. Það þarf að taka kjarnasýni. Það þarf að fá einhverjar staðfestingar áður en það er hægt að segja eitthvað.“

Lagt er til að flotað verði í gólf þar sem …
Lagt er til að flotað verði í gólf þar sem sig er mest. Ljósmynd/Aðsend

Vilja kítta í veggi sem ætti að rífa

Segir Hilmar vanta alla dýpt í ástandsskýrsluna enda séu þar lagðar til ýmsar úrbætur sem að hans mati myndu ekki viðgangast undir hefðbundnum kringumstæðum. 

„Ég er með hlaðna veggi sem eru sprungnir í gegn, sem undir eðlilegum kringumstæðum yrðu rifnir niður og settir upp aftur. Þeir vilja sparsla eða kítta í þetta,“ segir Hilmar og bætir við að einnig sé honum ráðlagt að flota gólf þar sem missig sé mest en ekki hafi verið skoðað hvers vegna gólfið sé að síga. 

Þá bendir hann á að útveggur við gólfið halli um 2,7 sentimetra en að það ásamt öðru sé ekki nefnt í skýrslunni og að engar myndir af húsinu séu þar meðfylgjandi. 

Segir Hilmir einnig furðulegt að ekki komi neins staðar fram í skýrslunni hvernig ástand hússins eigi að vera undir eðlilegum kringumstæðum til samanburðar við raunverulegt ástand hússins.

Að sögn Hilmars er lagt til að hann kítti og …
Að sögn Hilmars er lagt til að hann kítti og sparsli í sprungur á veggjum. Ljósmynd/Aðsend

NTÍ og verkfræðistofur bendi hvort á annað

Hann segir fátt um svör frá NTÍ og að forstjóri stofnunarinnar, Hulda Ragnheiður Árnadóttir, hafi í raun aðeins bent á verkfræðistofurnar sem ákvarði sjálfar hversu langan tíma ástandsskoðun taki að hverju sinni.

Verkfræðistofurnar varpi aftur á móti ábyrgðinni og spurningunum aftur á NTÍ, inntar eftir svörum við áhyggjum íbúa.

Spurður hvað hann telji liggja að baki þessum vinnubrögðum kveðst Hilmar ómögulega getað sagt til um það. 

„Það er það sem ég skil ekki. Ég vann á verkfræðistofu og þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð á verkfræðistofu.

Ef þær eru að fara eftir einhverjum fyrirmælum sem NTÍ er að gefa þá eiga þær náttúrulega að bakka út og fara. Það er faglegt. Þessar skýrslur eru ekki faglegar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert