Vara við stórhríð og snjóflóðum á Vestfjörðum

Miklum vindi er spáð á Vestfjörðum. Þessi vindaspá er fyrir …
Miklum vindi er spáð á Vestfjörðum. Þessi vindaspá er fyrir kl. 11 að morgni fimmtudags. Kort/Veðurstofa Íslands

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á Vestfjörðum frá kl. 22 í kvöld, miðvikudag.

Spáð er austan- til norðaustanstormi með snjókomu í nótt.

„Þegar líður á nóttina snýst vindur meira til norðurs miðað við nýjustu spár og kólnar. Á fimmtudag og föstudag er gert ráð fyrir norðaustan- til norðanstórhríð, skafrenningi með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum og að vegir undir bröttum fjallshlíðum lokist vegna snjóflóða,“ segir á bloggsíðu Veðurstofunnar um snjóflóðahættu.

Aðstæður geta breyst

Ekki er talin hætta í byggð að svo stöddu en tekið er fram að aðstæður geti breyst þegar líði á veðrið.

„Á Norðurlandi er einnig gert ráð fyrir slæmu veðri seinni part fimmtudags og föstudag með mikilli snjókomu og hvassri norðanátt. Ekki hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi en staðan verður endurmetin á morgun.

Á Austfjörðum er spáð ákafri en skammvinnri úrkomu í nótt í formi rigningar en snjókomu efst í fjöll.

Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgist vel með aðstæðum.“

Vara við snjóflóðahættu á Facebook

Lögreglan á Vestfjörðum telur einnig ástæðu til að vara við snjóflóðahættunni. Það gerir hún með færslu á bandaríska samfélagsmiðlinum Facebook.

Bendir hún á að ekki sé gert ráð fyrir að veður gangi niður fyrr en að morgni laugardags og að gert sé ráð fyrir mikilli úrkomu.

„Þá verður einnig sérstaklega fylgst með stöðunni á Súðavíkurhlíð, Flateyrarvegi og Raknadalshlíð í Patreksfirði vegna mögulegrar snjóflóðahættu gangi spáin eftir,“ segir í færslu lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert