Vill endurskoða hlutverk Seðlabankans

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir ákvörðun peningastefnunefndar vera gríðarleg …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir ákvörðun peningastefnunefndar vera gríðarleg vonbrigði. mbl.is/Árni Sæberg

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það vera vonbrigði að Seðlabanki Íslands hafi haldið stýrivöxtum óbreyttum. Vill hann að Alþingi endurskoði hlutverk bankans og sjálfstæði hans.

„Þetta eru gríðarlega vonbrigði,“ segir Ragnar Þór í samtali við mbl.is spurður um viðbrögð.

Vext­ir á sjö daga bundn­um inn­lán­um verða áfram 9,25%. Fram kem­ur í yf­ir­lýs­ingu pen­inga­stefnu­nefnd­ar bank­ans að óvissa hafi minnkað eft­ir und­ir­rit­un kjara­samn­inga á al­menn­um vinnu­markaði. Spenn­an í þjóðarbú­inu gæti þó leitt til þess að launa­skrið verði meira en ella.

„Sú gagnrýni sem Seðlabankinn og Peningastefnunefnd – ég tala nú ekki um seðlabankastjóri – hafa beint gegn verkalýðshreyfingunni síðustu ár er að engu orðin. Ramminn utan um kjarasamninga var í einu og öllu eftir þeim línum sem Seðlabankinn hafði lagt.

Ljóst er að hann er á einhverri allt annarri vegferð heldur en að ná niður hér verðbólgu hratt og vel og sinna sínu lögbundna hlutverki að verja hér verðstöðuleika. Ég tala nú ekki um efnahag heimilanna og fólksins í landinu. Hann er einfaldlega að ganga að heimilunum dauðum,“ segir Ragnar Þór og bætir við að Seðlabankinn sé einnig að bregðast litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

„Það þarf eitthvað að gera“

Ragnar segir alvarleg teikn á lofti um skuldastöðu heimilanna og nefnir að yfirdráttarlán hafa vaxið verulega.

„Maður veltir hreinlega fyrir sér á hvaða leið Seðlabankinn er og hvernig þetta endar ef það verður ekki gripið inn í, og þá vísa ég á löggjafann. Þetta blessaða og margumtalaða sjálfstæði Seðlabankans er hreinlega að murka lífið og líftóruna úr heimilum landsins. Þeim er hreinlega að blæða út. Fólk stendur ekki undir þessu.“

Ertu þá að kalla eftir að stjórnvöld grípi fram fyrir hendur Seðlabankans?

„Það þarf eitthvað að gera. Ég leyfi mér að segja það að líf fólks og framfærsla sé í höndunum á örfáum aðilum, sem virðast hafa meiri völd heldur en löggjafinn um efnahagsmál, og ég bara kalla eftir því að málefni Seðlabankans verði endurskoðuð,“ svarar Ragnar Þór. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert