Breytingar vinni gegn nýjum kjarasamningum

„Ólíðandi er með öllu að vélað sé um hagsmuni fólksins …
„Ólíðandi er með öllu að vélað sé um hagsmuni fólksins í landinu með svo ófyrirleitnum hætti, nánast í skjóli nætur, í bakherbergjum Alþingis,“ segir ASÍ. Samsett mynd

„Stórhættulegar breytingar“ sem gerðar hafa verið á frumvarpi um búvörulög eru bein aðför að almenningi og vinna gegn nýjum kjarasamningum, að sögn Alþýðusambands Íslands.

Frumvarp um breyt­ing­ar á bú­vöru­lög­um og fram­leiðenda­fé­lög­um var lagt fram af matvælaráðherra og var samþykkt fyrir skömmu síðan. Nefndarálit meirihluta atvinnuveganefndar gekk lengra en upp­haflega frumvarpið.

Breytingarnar fela m.a. í sér undanþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá samkeppnislögum. Formaður Bænda­sam­tak­anna sagðist í samtali við mbl.is fyrr í dag taka vel í þessar breytingar.

Finn­björn A. Her­manns­son, for­seti ASÍ.
Finn­björn A. Her­manns­son, for­seti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ASÍ barst ekki beiðni um umsögn

Alþýðusambandið (ASÍ) varaði þingmenn við samþykkt frumvarpsins, sem það var tekið til þriðju umræðu á Alþingi í dag en atkvæðagreiðslu þess frestað um skamma hríð, áður en það var svo samþykkt. Það gerðu VR, Neytendasamtök­in, Sam­tök versl­un­ar og þjón­ustu (SVÞ) og Fé­lag at­vinnu­rek­enda (FA) einnig.

ASÍ segir í yfirlýsingu að breytingarnar séu svo róttækar „að fullyrða má að ekki er á ferð sama mál og ýmsir hagaðilar tjáðu sig um í umsagnarferlinu.“

Þá hafi ASÍ ekki borist umsagnarbeiðni né heldur hafi ekkert samráð verið haft við verkalýðshreyfinguna við vinnslu málsins.  

Slík framganga teljist ólögmæt

„Eftir breytingar atvinnuveganefndar er frumvarpið bein aðför að kjörum fólksins í landinu sem gert verður að sæta því að hagsmunaaðilar hafi með sér samráð um verka­skipt­ingu, verðlagn­ingu og fleira. Vart þarf að taka fram að slík framganga telst ólögmæt og refsiverð í öðrum atvinnugreinum. Til að tryggja lögmæti samráðs og hringamyndunar eru felld niður ákvæði um eftirlit Samkeppniseftirlitsins og eftir atvikum bann við óheimilum samningum eða ákvörðunum framleiðenda, sem voru í upphaflegu frumvarpi ráðherra.“

Í yfirlýsingunni segir enn fremur að breytingarnar gangi mun lengra en þekkist í nágrannalöndum. Efasemdir hljóti að vakna um að þær stæðust skoðun samkvæmt EES-reglum.

Að öðru leyti tekur ASÍ undir þau sjónarmið sem fram koma í áliti Samkeppniseftirlitsins sem telur málið allt til mikillar óþurftar.

Breytingarnar sem lagðar hafa verið til fela m.a. í sér …
Breytingarnar sem lagðar hafa verið til fela m.a. í sér undanþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá samkeppnislögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vélað um hagsmuni fólks í bakherbergjum Alþingis

Í mánuðinum var skrifað undir kjarasamninga til fjögurra ára á almennum vinnumarkaði sem höfðu það einkum að markmiði að vinna gegn verðbólgu til að þannig megi færa niður vaxtastig í landinu.

ASÍ bendir á að samningunum fylgi mikilvæg yfirlýsing stjórnvalda um aðkomu þeirra næstu fjögur ár en að vilji meirihluta atvinnuveganefndar vinni beinlínis gegn því markmiði, „og vekur vægast sagt mikla furðu að kjörnir fulltrúar almennings hyggist ganga fram með þessu móti.“

ASÍ telur alla meðferð málsins með miklum ólíkindum og hvetur þingmenn til að huga að afleiðingum gjörða sinna.

„Ólíðandi er með öllu að vélað sé um hagsmuni fólksins í landinu með svo ófyrirleitnum hætti, nánast í skjóli nætur, í bakherbergjum Alþingis,“ segir að lokum í yfirlýsingunni, sem er undirrituð af Finnbirni A. Hermannssyni, forseta ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert