Gígarnir hærri og kvikustrókavirkni heldur áfram

Eldgosið hófst við Sundhnúkagígaröðinaum síðustu helgi.
Eldgosið hófst við Sundhnúkagígaröðinaum síðustu helgi. mbl.is/Árni Sæberg

Krafturinn í eldgosinu virðist vera svipaður og í gær, af vefmyndavélum að dæma. Gígarnir hafa hækkað ágætlega en sem stendur er erfitt að meta hvað þeir eru orðnir háir. Áfram er nokkur kvikustrókavirkni, sem þýðir að kvikan skýst upp í strókum.

„Þetta mallar bara áfram," segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, spurð út í stöðuna á eldgosinu við Sundhnúkagíga.

Hún býst við því að flogið verði yfir svæðið seinna í dag til að sjá gosið betur í dagsbirtu.

Sigríður Magnea kveðst ekki hafa upplýsingar um að hrauntungurnar tvær hafi lengst. Frekar virðist byggjast upp kvika í kringum gígana og út frá þeim.

Engin gasmengun hefur verið í byggð í nótt. Vindur hefur snúist til norðvestanáttar og gasmengun mun því berast til suðurs út á sjó. Ef áttin verður vestlæg er möguleiki á að mengunin berist til Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert