Hættustig á Ísafirði: Hús rýmd vegna snjóflóðahættu

Gert er ráð fyrir að hættustig verði í gildi til …
Gert er ráð fyrir að hættustig verði í gildi til aðfaranætur laugardags. Mynd úr safni. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Atvinnuhús á Ísafirði hafa verið rýmd vegna snjóflóðahættu. Húsin eru undir Seljalandshlíð við jaðar bæjarins. Veðurstofan hefur lýst yfir hættustigi á Ísafirði og vegum hefur verið lokað vegna ófærðar.

Tómas Jóhannesson ofanflóðasérfræðingur segir að óvissustig hafi verið í gildi á Ísafirði frá því í gær og að í vikunni hafi verið snjóflóðahætta víða á Vestfjörðum. 

„Þetta eru atvinnuhús á svæði í útjaðri bæjarins sem oft eru rýmd þegar kemur upp snjóflóðahætta,“ segir Tómas í samtali við mbl.is. 

Lítið snjóflóð féll úr Innra-Bæjargili ofan Flateyrar í nótt, að sögn Tómasar, og nokkur flóð féllu í sjó í Súgandafirði í dag. Einnig féll snjóflóð úr Raknadalshlíð við Patreksfjörð í morgun.

Hættustig í gildi til laugardags

Frekari fréttir af snjóflóðum hafa ekki borist en Tómas gerir ráð fyrir að fleiri flóð hafi fallið.

„Við eigum von á áframhaldandi hríð og veðri allan daginn á morgun, og svo á að draga úr vindi og ofankomu aðfaranótt laugardagsins. Þannig að við gerum ráð fyrir að þetta standi yfir á morgun og svo fari ástandið að skána á laugardag,“ segir Tómas

Bæði Flateyrarvegur og vegurinn um Súðavíkurhlíð eru lokaðir vegna snjóflóðahættu og ófærðar.

Aðspurður segir Tómas að enn sem komið er sé ekki tilefni til þess að lýsa yfir hættustigi víðar á Vestfjörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert