„Það er Bankasýslan sem hefur það hlutverk að sjá um samskipti við fjármálafyrirtæki og hafa eftirlit með framkvæmd eigendastefnu og samningum ríkisins við viðkomandi fyrirtæki. Málefni af þessu tagi hefði þar af leiðandi átt að berast Bankasýslu ríkisins,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra í umræðum á Alþingi í gær þegar hún flutti þinginu munnlega skýrslu um fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM af Kviku banka.
Hún sagði að samskipti og skipti á upplýsingum hefðu ekki verið eins og þau ættu að vera miðað við það fyrirkomulag sem lagt væri upp með, þ.e. að bankaráð Landsbankans hefði átt að upplýsa Bankasýsluna um fyrirhuguð viðskipti og Bankasýslan síðan að upplýsa sig.
„Núna er bankaráð Landsbankans með spurningar frá Bankasýslunni sem þau fá sjö daga til að svara. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir verður hægt að leggja mat á næstu skref því ég hef ekki upplýsingar um það sem Bankasýslan spyr um. Það skiptir máli að það liggi fyrir til að hægt sé að skoða næstu skref,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Það að bankaráðið hefði ekki upplýst Bankasýsluna um málsatvik eins og því bæri að gera sagði Þórdís Kolbrún ekki ásættanlegt. „Hefði það verið gert hefði atburðarásin orðið önnur,“ sagði hún.
„Ríkisstjórnin ætlar að klára söluna á Íslandsbanka,“ sagði Þórdís Kolbrún og hvorki væri á stefnuskránni að selja Landsbankann né heldur að ríkisvæða tryggingafélag. Þingmenn Vinstri grænna og Framsóknarflokks sem til máls tóku við umræðuna sögðu ekki á stefnuskrá sinna flokka að selja Landsbankann.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.