Skemmdri díselolíu dælt á Bústaðavegi

Menguð díselolía var afgreidd um stund í gær á stöð …
Menguð díselolía var afgreidd um stund í gær á stöð Orkunnar á Bústaðavegi. mbl.is/Golli

Viðskiptavinir Orkunnar á Bústaðavegi sem keyptu sér díselolíu í gær urðu fyrir því óláni að fá afgreidda skemmda olíu á ökutæki sín. Málið uppgötvaðist eftir að ökutæki stöðvuðust eftir að hafa fengið skemmdu olíuna í tankinn.

Mannleg mistök

Skeljungur annast dreifingu olíu á stöðvar Orkunnar. Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs segir í samtali við mbl.is að stífir verkferlar séu í afhendingu á olíu, en að mannleg mistök hafi orðið til þess að menguð olía var keyrð út á Bústaðaveg.

Í frétt Vísis er greint frá því að stöðinni hafi verið lokað í nótt til að vinna að því að dæla olíunni upp og hreinsa og fylla tanka á ný.

„Það sem gerðist á Bústaðavegi í gær er það að birgðastaðan var orðin mjög lág í tönkunum og það var sótt í botn díseltanksins í Örfirisey um 4.000 lítrar rétt til að fylla á, enda von á olíuskipi til landsins. Þessi áfylling átti að duga fyrir kvöldið og nóttina.

Við þetta voru gerð ákveðin mannleg mistök, það er í því hvernig svona olía er sótt sem er neðarlega í tönkunum þegar birgðastaðan er lág. Fyrir vikið hleypur olían í kekki og kemur á botnfallinu inn í þessa lítra.“

Engar skemmdir á ökutækjum

Þórður var spurður að því hvort ökutæki hafi skemmst vegna þessa.

„Ökutækin ættu ekki að skemmast, þar urðu um tuttugu ökutæki fyrir þessu og búið að tala við alla eigendurna. Það verður lagað það sem þarf að laga. Við væntum þess að skaði eigenda verði ekki umfram það rask og óþægindi sem eigendurnir hafa orðið fyrir. Við útvegum bílaleigubíla á meðan á þessari hreinsun fer fram,“ segir Þórður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert