Tveir eru lausir úr gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu á mansali og skipulagðri glæpastarfsemi í tengslum við viðskiptaveldi Davíðs Viðarssonar, áður Quang Lé.
Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu. RÚV greindi fyrst frá en samkvæmt heimildum miðilsins eru einstaklingarnir tveir bókari hjá fyrirtæki Davíðs og faðir bókarans.
Átta voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu 5. mars.
Fjórir sæta enn gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna og rennur gæsluvarðhaldsúrskurðurinn út næsta þriðjudag. Þá eru níu með stöðu sakbornings.
Grímur kvaðst ekki geta gefið upp hvort lögreglan muni fara fram á framlengt gæsluvarðhald yfir fjórmenningunum.
Rannsókninni miðar vel áfram, að sögn Gríms.