Vafi um kjörgengi frambjóðanda Röskvu

Rakel Anna Boulter, frambjóðandinn sem um ræðir, kýs að tjá …
Rakel Anna Boulter, frambjóðandinn sem um ræðir, kýs að tjá sig ekki um málið. Dagmar Óladóttir, varaforseti SHÍ og fulltrúi Röskvu í ráðinu, segir að Röskva muni ekki tjá sig um málið. mbl.is//Sigurður Bogi

Frambjóðandi Röskvu til Háskólaráðs í stúdentaráðskosningum sem nú standa yfir er sakaður um að vera ókjörgengur. Frambjóðandinn sem um ræðir er forseti stúdentaráðs, Rakel Anna Boulter.

Arent Orri J. Claessen, formaður Vöku, staðfestir í samtali við mbl.is að Vaka hafi sent kjörstjórn erindi um það.

mbl.is náði tali af Mikael Berg Steingrímssyni, formanni kjörstjórnar. „Kjörstjórn hefur borist erindi frá annarri fylkingunni,“ segir Mikael og bætir við að kjörstjórn sé með málið til skoðunar. Hann kýs að tjá sig ekki nánar um málið.

Rakel er ekki skráð til náms í Háskóla Íslands á yfirstandandi skólaári, að sögn Arents. Aðeins þeir sem skráðir hafa verið í háskólann á yfirstandandi skólaári eru kjörgengir.

Röskva tjáir sig ekki um málið

Rakel Anna Boulter, frambjóðandinn sem um ræðir, kýs að tjá sig ekki um málið. Dagmar Óladóttir, varaforseti SHÍ, segir að Röskva muni ekki tjá sig um málið, þar sem það sé á borði kjörstjórnar, og vísar á kjörstjórn.

Er það rétt að hún [Rakel] sé ekki kjörgeng?

„Við erum meðvituð um málið en ætlum ekki að tjá okkur meira. Það er bara kjörstjórn sem þarf að svara,“ segir Dagmar.

Er hægt að svara því hvort að hún [Rakel] sé skráð í háskólann á yfirstandandi háskólaári?

„Ekki eins og er, þú verður að beina þessu til kjörstjórnar,“ segir Dagmar.

Ekki skráður sem nemandi á Uglunni

Spurður hvað Vaka hafi undir höndum sem bendi til þess að Rakel sé ekki skráð í háskólann á yfirstandandi skólaári segir Arent:

„Hver nemandi hefur aðgang að Uglunni þar sem hægt er að fletta upp þeim sem eru í námi. Það er ekki hægt að fletta henni upp neins staðar,“ segir Arent.

Hann segir enn fremur að Rakel sé titluð sem bókmenntafræðingur, ekki stúdent. Arent vonast til þess að kjörstjórn komist að niðurstöðu sem allra fyrst.

Kosningarnar tvískiptar

Kosningar til stúdentaráðs eru tvískiptar. Annars vegar er kosið í stjórn stúdentaráðs og hins vegar er kosið um tvo fulltrúa nemenda í Háskólaráði, æðsta stjórnvaldi háskólans.

Ákvæði um kjörgengi til háskólaráðs er að finna í b.-lið 31. gr. samþykkta Stúdentaráðs.

„Kosningarétt og kjörgengi til háskólaráðs hafa allir sem skráðir hafa verið til náms við Háskóla Íslands á yfirstandandi skólaári“.

Telja mögulegt að framboðslistinn í heild sé ókjörgengur

Í minnisblaði sem Vaka sendi á kjörstjórn kemur fram að á framboði til háskólaráðs skuli vera framboðslistar, sem samanstanda af fjórum frambjóðendum. Vaka ber það fyrir sig að þar sem einn frambjóðandi er ókjörgengur hljóti framboðslisti Röskvu í heild sinni að vera ókjörgengur. Það sé vegna þess að aðeins þrír frambjóðendur eru til framboðs, ekki fjórir eins og samþykktir kveða á um.

„Aukinheldur, hljóta áhrifin að vera þau að listinn sem slíkur teljist ókjörgengur, þar sem hann uppfyllir ekki skilyrði samþykktanna til kjörgengis, jafnvel þó þrír frambjóðendur njóti kjörgengis, enda er þá ekki um framboðslista með fjórum frambjóðendum að ræða, sbr. áðurnefndum c.-liðar 31. gr. samþykktanna,“ segir í minnisblaði Vöku sem mbl.is hefur undir höndum.

Kosningarnar hafa verið í umfjöllun undanfarna daga vegna háværrar umræðu um bílastæðagjöld og rekstur Félagsstofnunar stúdenta. Kosningin hófst í gær og lýkur kl 18:00 í dag.

Uppfært klukkan 14.03

Í upphaflegri fyrirsögn sagði að Röskva kysi ekki að tjá sig. Tilkynning hefur borist fréttastofu frá Röskvu þar sem Röskva tjáir sig og staðfestir að Rakel sé ekki kjörgeng. 

„Um tilnefningar SHÍ til háskólaráðs HÍ gilda ákvæði IX. kafla laga SHÍ, sem aðgengileg eru á heimasíðu ráðsins. Þar kemur fram, í b-lið 31. gr., að kjörgengi til háskólaráðs hafi allir sem skráðir hafa verið til náms við Háskóla Íslands á yfirstandandi skólaári. Rakel Anna Boulter hefur ekki verið skráður nemandi við Háskóla Íslands síðan á vorönn 2023 og er því ekki kjörgeng til þessara kosninga. Mistök hafa átt sér stað þar sem þessi brestur kjörgengis var engum ljós fyrr en á öðrum degi kosninga, 21. mars 2024,“ segir meðal annars í tilkynningu frá Röskvu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert