Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar, er til taks á Ísafirði en þar hefur Veðurstofa Íslands lýst yfir hættustigi vegna snjóflóðahættu.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að skipið Þór hafi verið bundið við höfn á Ísafirði frá því á laugardag og muni vera þar lengur, að ósk lögreglustjórans á Vestfjörðum.
Þegar hættustigi var lýst yfir kl. 16 í dag var ákveðið að rýma atvinnuhús undir Seljalandshlíð í útjaðri Ísafjarðarbæjar, þar sem hætta er talin á að snjóflóð falli á þau.
Bæði Flateyrarvegur og vegurinn um Súðavíkurhlíð eru lokaðir vegna snjóflóðahættu og ófærðar.
„Þegar spáin er eins og hún er búin að vera síðustu daga, þegar talin er vera snjóflóðahætta, þá er mjög algengt að við staðsetjum skipin okkar á þeim stað þar sem mest þörfin er á og það gerum við í samvinnu við lögreglustjórann í því umdæmi,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is
„Síðan verður staðan tekin á morgun miðað við hvernig veðrið lítur út,“ bætir hann við.
Veðurstofa gerir ráð fyrir því að hættustigið verði í gildi til laugardags. Lítið snjóflóð féll úr Innra-Bæjargili ofan Flateyrar í nótt og nokkur flóð féllu í sjó í Súgandafirði í dag. Einnig féll snjóflóð úr Raknadalshlíð við Patreksfjörð í morgun.
Ofanflóðasérfræðingur sagði við mbl.is fyrr í dag að ekki væri enn tilefni til þess að lýsa yfir hættustigi víðar á Vestfjörðum.