Varðskipið Þór í viðbragðsstöðu á Ísafirði

Varðskipið Þór við bryggju á Ísafirði.
Varðskipið Þór við bryggju á Ísafirði. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar, er til taks á Ísafirði en þar hefur Veðurstofa Íslands lýst yfir hættustigi vegna snjóflóðahættu. 

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að skipið Þór hafi verið bundið við höfn á Ísafirði frá því á laugardag og muni vera þar lengur, að ósk lögreglustjórans á Vestfjörðum. 

Þegar hættustigi var lýst yfir kl. 16 í dag var ákveðið að rýma atvinnuhús und­ir Seljalandshlíð í útjaðri Ísafjarðarbæjar, þar sem hætta er talin á að snjóflóð falli á þau. 

Bæði Flat­eyr­ar­veg­ur og veg­ur­inn um Súðavík­ur­hlíð eru lokaðir vegna snjóflóðahættu og ófærðar.

Hættustig í gildi fram á laugardag

„Þegar spáin er eins og hún er búin að vera síðustu daga, þegar talin er vera snjóflóðahætta, þá er mjög algengt að við staðsetjum skipin okkar á þeim stað þar sem mest þörfin er á og það gerum við í samvinnu við lögreglustjórann í því umdæmi,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is

„Síðan verður staðan tekin á morgun miðað við hvernig veðrið lítur út,“ bætir hann við.

Veðurstofa gerir ráð fyrir því að hættustigið verði í gildi til laugardags. Lítið snjóflóð féll úr Innra-Bæj­argili ofan Flat­eyr­ar í nótt og nokk­ur flóð féllu í sjó í Súgandafirði í dag. Einnig féll snjóflóð úr Rakna­dals­hlíð við Pat­reks­fjörð í morg­un.

Ofanflóðasérfræðingur sagði við mbl.is fyrr í dag að ekki væri enn til­efni til þess að lýsa yfir hættu­stigi víðar á Vest­fjörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert