Yrði áfangasigur fyrir landbúnað og neytendur

Frumvarpið um breytingar á búvörulögum og framleiðendafélögum er lagt fram …
Frumvarpið um breytingar á búvörulögum og framleiðendafélögum er lagt fram af matvælaráðherra. Nefndarálit meirihluta atvinnuveganefndar gengur lengra en upphaflega frumvarpið, sem verður tekið til þriðju umræðu á Alþingi í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lagt er til af hálfu meirihluta atvinnuveganefndar að lögfest verði að kjötafurðastöðvar í landbúnaði fái heimild til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa samstarf til að halda niðri kostnaði. 

„Þetta blasir við mér þannig að það sé loksins verið að ná einhverjum áfangasigri til hagsbóta fyrir landbúnað og neytendur á Íslandi,“ segir Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna, aðspurður í samtali við mbl.is.

Frumvarpið um breytingar á búvörulögum og framleiðendafélögum er lagt fram af matvælaráðherra. Nefndarálit meirihluta atvinnuveganefndar gengur lengra en upphaflega frumvarpið, sem verður tekið til þriðju umræðu á Alþingi í dag.

Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna.
Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna. Ljósmynd/Aðsend

Myndi bæta samkeppnisstöðu 

„Ég sé þetta ekki öðruvísi en þannig að það sé verið að gera okkur Íslendingum kleift að reka okkar landbúnað og bæta samkeppnisstöðu okkar með þessu móti og færa okkur nær því sem gengur og gerist vítt og breytt í löndunum í kringum okkur,“ segir Trausti.

Í frumvarpinu er lagt til að fyrirtækjum sem eru í eigu eða undir meirihlutastjórn bænda sem frumframleiðenda landbúnaðarafurða verði heimilt að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum.

Fá heimild til hagræðingar

Spurður hvernig þetta muni ganga fyrir sig ef lögin verða samþykkt svarar Trausti:

„Kjötafurðarstöðvarnar – eins og ég sé þetta fyrir mér – þær eru að fá heimild til ákveðinnar hagræðingar, að uppfylltum skilyrðum ef þetta fer í gegn. Þá er boltinn hjá þeim að nýta sér það og ég vona að þeir geri það. Vegna þess að í grunninn snýst þetta alltaf um það að tryggja samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu gagnvart innflutningi,“ segir hann.

Mun draga úr framleiðslukostnaði

Lögin myndu gefa heimild sem styður við endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu.

„Það segir sig sjálft að það mun draga úr kostnaði við framleiðslu ákveðinna kjöttegunda. Það eiga allir að hafa gott af því. Það er það sem þetta snýst um – að lækka kostnað – og ég veit ekki um neinn sem fagnar því ekki,“ segir Trausti.

Hann vonast til þess að frumvarpið verði klárað og samþykkt sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert