Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri hyggst nýta tímann yfir páskana til að „meta“ áskorun sem henni barst á Rás 1 frá sveitungum sínum þar sem hún var hvött til að bjóða sig fram í embætti forseta Íslands.
Vísir greindi fyrst frá en þar er hún sögð íhuga forsetaframboð.
Í kveðju frá gangnamönnum á Austur-Síðu afrétti sem spiluð var á Rás 1 fyrr í dag sagði:
„Við skorum á Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra að bjóða sig fram til forseta Íslands.“
Í samtali við mbl.is segir Halla að henni þyki vænt um svona kveðju. Hún komi frá sveitungum hennar í Vestur-Skaftafellssýslu en sjálf er Halla ættuð frá bænum Hörgslandskoti á Síðu.
„Þetta er hópur sem ég hef farið með yfir langan tíma á afrétt. Mér þykir mjög vænt um þessa kveðju því þegar þú ert í smalamennsku þá ertu í alls konar veðrum. Það er þoka, það er heiðskýrt, það er snjókoma og allt þar á milli. Og það reynir ótrúlega mikið á samvinnu í að koma fé af fjalli. Þess vegna hittir þessi kveðja mig alveg í hjartastað.“
Halla ætlar að „meta“ áskorunina yfir páskana í ferska loftinu fyrir austan með góðu fólki.
Hún kveðst hafa sterka sýn á forsetaembættið.
„Mér finnst skipta miklu máli að þarna sé einstaklingur sem geti talað fyrir gildum okkar á erlendri grundu og skapað tækifæri fyrir okkur – og hér heima að virkja fólk í að taka þátt þannig að allir leggi hönd á plóg fyrir samfélagið og framtíð þess,“ segir Halla.