Félag háskólakvenna hefur valið háskólakonu ársins 2023. Háskólakona ársins er dr. Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur og deildarstjóri jarðskorpu-, jarðskjálfta- og eldfjallarannsókna á Veðurstofu Íslands.
„Kristín tekur virkan þátt í vísindaráði almannavarna og kemur að stundakennslu í jarðskjálftafræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir Kristínar fara þvert á ýmsar greinar jarðvísinda í þeim tilgangi að skilja hegðun eldfjalla og jarðskorpu á Íslandi. Markmið rannsókna hennar er að bæta vöktun, upplýsingamiðlun og áreiðanleika viðvarana til almennings, almannavarna, flugmálayfirvalda og annarra hagsmunaaðila,“ segir í tilkynningu.
Þá kemur fram að Kristín hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og rannsóknir og meðal annars verið sæmd fálkaorðunni árið 2023 fyrir framlag sitt til vísinda, miðlunar og náttúruvárvöktunar.
Kristín hafi staðið í ströngu á skjálfta- og gosvaktinni undanfarin misseri og hafi auk þess haldið þjóðinni upplýstri með rólegum og traustum málflutningi.
Við val á háskólakonu ársins horfir stjórn Félags háskólakvenna til þess að framlag háskólakonu ársins til samfélagsins þyki skara fram úr, að hún sé brautryðjandi á sínu fagsviði og að hún sé góð fyrirmynd fyrir aðrar háskólakonur.
Tilgangur viðurkenningarinnar er sagður sá að vekja athygli á fjölbreyttum starfsvettvangi háskólakvenna, beina kastljósinu að störfum þeirra og rannsóknum og undirstrika framlag þeirra til samfélagsins.