Mesta gasmengunin verður í og við Grindavík

Hætta af völdum gasmengunar er metin meiri á öllum svæðum.
Hætta af völdum gasmengunar er metin meiri á öllum svæðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hætta af völdum gasmengunar er metin meiri á öllum svæðum við gosstöðvarnar samanborið við síðustu daga. Er það vegna veðurspár næstu daga og hærri mældra gilda á flæði brennisteinsdíoxíðs frá gígunum og hraunbreiðunni nú en áður. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofunnar.

Gasmengunin verður mest til suðurs af gosstöðvunum eða í og við Grindavík. Hér má nálgast gasdreifingarspá.

Hraunbreiðan er enn talin hættuleg sökum þess hve stutt er liðið frá því hún myndaðist en norðvestan við gosstöðvarnar er hætta vegna hraunflæðis þó metin minni en áður vegna stöðugleika hraunbreiðunnar á því svæði. Þá rennur hraunið einkum til suðurs.

Hefur Veðurstofan uppfært hættumat sitt sem má sjá hér fyrir neðan.

Hættumat hefur verið uppfært og gildir það frá klukkan 15 …
Hættumat hefur verið uppfært og gildir það frá klukkan 15 í dag til klukkan 15 mánudaginn 25. mars, haldist staðan óbreytt. Kort/Veðurstofa Íslands

Eldvirkni stöðug

Framleiðni eldgossins hefur haldist stöðug undanfarna daga. Lítil sem engin skjálftavirkni er við kvikuganginn eða í nágrenni hans.

Þá hefur landris verið afar vægt við Svartsengi frá því að kvikuhlaupið, og í kjölfarið eldgosið, hófst á laugardaginn.

Eru vísbendingar um að kvikan flæði af miklu dýpi beint út um gosopin í stað þess að safnast fyrir í grynnra kvikuhólfinu undir Svartsengi.

Frá gosstöðvunum í dag.
Frá gosstöðvunum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert