Ósáttur með fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM

Samsett mynd/mbl.is/Hjörtur/Eggert

Fyr­ir­huguð kaup Lands­bank­ans á TM af Kviku banka fara þvert gegn eigendastefnu ríkisins. Nær hefði verið að skoða slík viðskipti eftir að hlutur ríkisins í Íslandsbanka væri að fullu seldur.

Þetta segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi fyrir hádegi.

„Í einföldustu máli þá tel ég að það sé þvert gegn eigendastefnunni okkar og þeirri pólitísku stefnumörkun sem hefur verið unnið eftir á undanförnum árum að ríkið sé að auka við umsvif sín á fjármálamarkaði. En það er það sem leiðir að því að Landsbankinn kaupi Tryggingamiðstöðina. Að því leytinu til er ég ósáttur með þetta,“ segir Bjarni.

Hefði frekar átt að koma til skoðunar eftir söluna á Íslandsbanka

Bjarni segir að frekar ætti að skoða svona viðskipti seinna meir, þegar búið væri að klára sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og jafnvel eftir að búið væri að selja einhvern hlut ríkisins í Landsbanka. Hann segir engu máli breyta hvort að viðskiptin sem slík séu metin viðskiptalega hagkvæm af stjórnendum bankans.

„Það eru þá bara viðskipti sem hefðu átt að koma til skoðunar þegar við erum komin lengra með að framfylgja eigendastefnunni, selt Íslandsbanka. Og síðan í kjölfarið hefði ég viljað sjá að ríkið myndi líka eingöngu halda eftir myndarlegum hlut í Landsbankanum en að öðru leyti losa sig út úr þeim rekstri.“

Ekkert að því að það sér rætt um pólitíkina“

Spurður hvort að hann viti til þess að fjármálaráðherra eða ríkisstjórnin geti að einhverju leyti beitt sér gegn því að viðskiptin nái fram að ganga segir Bjarni það ekki liggja fyrir.

„Nú er málið ekki beint á mínu borði og er í þessum farvegi og maður bíður eftir niðurstöðu úr þeirri vinnu. Það eru eflaust lögfræðileg álitamál sem þarf að greiða úr. En samhliða því að það eru einhver lögfræðileg úrlausnarefni að þá er ekkert að því að það sér rætt um pólitíkina sem er að baki,“ segir Bjarni.

Gert ráð fyrir því að selja hlut í Landsbankanum í eigendastefnunni

Hann segir að það þurfi að liggja fyrir hver pólitíski viljinn sé í þessu máli, hvernig menn sjái fyrir sér að þróa fjármálamarkaðinn á Íslandi og hvert umfang ríkisins eigi að vera á þeim markaði.

„Mér finnst menn oft á tíðum líta til Norðurlandanna í samanburði en Norðurlöndin eru ólík innbyrðis. Til dæmis er danska ríkið ekkert inn í bankarekstri. Þó að Norðmenn eigi myndarlegan hlut í DNB þá eru þeir ekki meirihluta eigendur þar, heldur halda bara ráðandi hlut til þess að tryggja meðal annars að höfuðstöðvar bankans verði til lengri tíma í Noregi,“ segir Bjarni og bætir við:

„Það er sama hugsun og við vorum með í huga þegar við skrifuðum inn í eigendastefnuna að til lengri tíma sé gert ráð fyrir því að ríkið eigi myndarlegan hlut í Landsbankanum, þó það sé ekki meirihluta eignarhlutur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert