„Við breytilega vindátt getur vart talist forsvaranlegt að halda úti starfsemi í Bláa Lóninu á meðan eldgos er enn í gangi og á það jafnframt við um aðra starfsemi inn á hættumatskorti Veðurstofu Íslands.“
Þetti er meðal þess sem segir í tilkynningu frá Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum.
Það sé mat hans að ógn stafi af hraunrennsli og gasmengun í Grindavík og inn í Svartsengi við núverandi aðstæður.
Hætta sé talin á að loftmengun geti ógnað heilsu manna inn á merktu hættusvæði næstu daga.
Lögregla og vinnueftirlitið hafa til rannsóknar atvik þar sem starfsmaður Bláa lónsins þurfti að leita sér læknisaðstoðar vegna gasmengunar.
Ítrekað er í tilkynningu lögreglustjóra að mælt sé gegn því að fólk dvelji innan Grindavíkur og innan hættusvæða. Lífshættulegar aðstæður geti skapast þar.
Í tilkynningunni segir einnig að ásamt því að fylgst sé vel með mengun á svæðinu sé fylgst með hraunrennsli fyrir ofan Suðurstrandarveg. Hraunrennslið ógni ekki veginum enn sem komið er.
Grindavík er áfram lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum fyrirtækja bæjarins, verktökum og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa, að því er segir í tilkynningu.
Fyrirkomulagið verði endurskoðað á mánudaginn, eða fyrr eftir atvikum.