„Já, í raun og veru hafa þau komið mér á óvart því það er svo langt síðan við upplýstum um þennan áhuga okkar.“
Þetta segir Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankas, spurð hvort viðbrögð við fyrirhuguðum kaupum Landsbankans á TM hafi komið henni á óvart.
„Það var mikill tími til að óska eftir fundi, frekari upplýsingum og ræða málin.“
Bankasýslan hefur tekið undir þær áhyggjur sem fjármálaráðherra hefur lýst, finnst þér að þær hefðu mátt koma fyrr fram?
„Mun fyrr. Við höfum aldrei heyrt þá nefna þessar áhyggjur fyrr en á sunnudaginn,“ segir Helga.
Fjármálaráðherra hefur sagt kaupin stríða gegn eigendastefnu ríkisins en bankinn er að mestu í eigu ríkisins. Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlutinn.
Helga hefur trú á því að gögnin sem bankaráðið hefur birt varpi ljósi á að ákvörðunin hafi verið á forræði bankaráðs og Bankasýslan upplýst um málið.
Aðspurð segir Helga símtöl við stjórnarformann og forstjóra Bankasýslunnar ekki hafa verið hljóðrituð.
Telurðu þær fullyrðingar Bankasýslunnar um að hún hafi verið „alls ókunnugt“ af viðskiptunum standast?
„Nei, alls ekki. Þau vissu að við sendum inn óskuldbindandi tilboð 20. desember,“ segir Helga og vísar aftur til þess hversu mikill tími hafi verið til að ræða málið.
„Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Að óskuldbindandi tilboð gæti síðar endað með skuldbindandi tilboði.“
Helga segir ýmislegt gleymast í umræðunni um Landsbankann og kaupin á TM.
„Landsbankinn hefur vaxið mjög mikið á síðustu árum. Síðasta rekstrarár var það besta í sögu bankans og þessi kaup tryggja það að við getum haldið áfram að vaxa og styrkjast í samkeppninni,“ segir hún.
„Á meðan öllu þessu fram vindur þá erum við, vonandi, eftir næsta aðalfund að fara greiða arð og þá erum við búin að greiða í ríkissjóð 192 milljarða frá árinu 2013,“ segir Helga.
„Bara það að tryggja að við verðum áfram samkeppnishæf þá erum við að auka langtímavirði Landsbankans og það er til hagsbóta fyrir ríkið sem alla aðra hluthafa og samfélagið allt.“