Krafturinn í eldgosinu við Sundhnúkagíga er svipaður og verið hefur. Hrauntungurnar tvær hafa ekkert færst til í nótt svo heitið geti, að sögn náttúruvársérfræðings.
„Þetta mallar áfram með svipuðum krafti,” segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „Það er töluvert líf í þessu ennþá,” bætir hún við, spurð út í kvikustrókavirkni, sem er enn í gangi.
Hún segir gígana hafa byggt upp í kringum sig, sérstaklega öðru megin og eru tveir þeirra stærstir.
Hvað varðar gasmengun segir Sigríður Magnea að það sé norðanátt og byrjað að lægja á svæðinu. Mengunin mun berast til suðurs í dag. Mengun á Reykjanesi hefur ekki mælst há í nótt.
Jarðskjálftavirkni er nánast engin.
Flogið verður yfir svæðið gossvæðið með drónum í dag en hún hefur ekki upplýsingar um hvort þyrla fljúgi líka yfir.