Úlfar Snæfjörð Ágústsson, kaupmaður og lengi fréttaritari Morgunblaðsins á Ísafirði, er látinn, 83 ára að aldri. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði í gær, 22. mars.
Úlfar fæddist 3. júlí 1940, en foreldrar hans voru Guðmundína Bjarnadóttir (1911-1988) og Guðmundur Guðni Guðmundsson (1912-2008). Úlfar var ættleiddur af Ágústi Guðmundi Jörundssyni (1906-1964).
Eiginkona Úlfars var Jósefína Guðrún Gísladóttir, f. 1940, d. 2018. Þau gengu í hjónaband 13. febrúar 1960. Synir Ínu og Úlfars eru Gautur Ágúst, f. 1961, d. 1978, Gísli Elís, f. 1969, Úlfur Þór, f. 1974, og Axel Guðni, f. 1978. Barnabörnin eru 9.
Úlfar var borinn og barnfæddur Ísfirðingur. Eftir að gagnfræðaskólagöngu lauk fór Úlfar til sjós og hóf um tvítugt verslunarstörf í verslun Jóns Bárðarsonar á Ísafirði sem hann keypti svo árið 1968. Það var í félagi við fleiri menn sem stofnuðu í kjölfarið Hamraborg og þar má segja að framtíðin hafi verið ráðin. Þeir opnuðu þrjár verslanir í framhaldinu og voru fyrirferðarmestir þeir Úlfar og Heiðar Sigurðsson. Seinna var rekstrinum skipt upp og kom Hamraborg á Ísafirði í hlut Úlfars. Hann átti og rak verslunina að stóru leyti fram til ársins 2000 er synir hans, Gísli og Úlfur, keyptu reksturinn. Þá átti Úlfar og rak hótel, var umboðsmaður Arnarflugs og Íslandsflugs og setti á stofn ferðaskrifstofu sem seldi utanlandsferðir.
Úlfar var um 25 ára skeið fréttaritari Morgunblaðsins á Ísafirði auk þess sem hann var líka um tíma umboðsmaður þess á staðnum.
Samfélags- og menningarmál voru Úlfari alla tíð hugleikin og fékk heimabærinn Ísafjörður að njóta krafta hans á mörgum sviðum. Hann var um tíma formaður Tónlistarfélags Ísafjarðar, var félagi í Lions svo áratugum skipti og um tíma umdæmisstjóri hreyfingarinnar á Íslandi. Svo mætti áfram telja.
Úlfar var einn stofnenda félags frétttaritara Morgunblaðsins, Okkar menn, og fyrsti formaður þess. Við leiðarlok þakkar Morgunblaðið Úlfari áratuga störf fyrir blaðið og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.