Bílastæðin uppbókuð yfir páskana

Langtímabílastæðin eru uppbókuð fram yfir páska. Mynd er úr safni.
Langtímabílastæðin eru uppbókuð fram yfir páska. Mynd er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Langtímabílastæðin við Keflavíkurflugvöll eru uppbókuð fram yfir páska. Því er ekki hægt að fá bílastæði við flugvöllinn nema það hafi verið bókað fyrir fram.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia. Um er að ræða eina stærstu ferðahelgi Íslendinga.

Ferðalangar eru hvattir til að nýta sér aðra samgöngumáta til og frá Keflavíkurflugvelli, hafi þeir ekki þegar bókað stæði.

Fólk hvatt til að mæta snemma á völlinn

Fólk er jafnframt hvatt til að mæta snemma í flug þar sem töluverð umferð er um flugvöllinn um páskana, svo og til að nota sjálfsafgreiðslustöðvar til að innrita sig í flug eftir því sem hægt er. Opnað er fyrir innritun í flug kl. 03:45 að morgni og öryggisleit er opnuð kl. 04:00.

„Við viljum þakka gestum flugvallarins fyrir að hafa brugðist vel við ábendingu okkar í síðustu viku um að bóka bílastæði fyrir fram á netinu til að forðast það að koma á bílnum á völlinn á leið úr landi og fá þá ekki bílastæði,“ segir í tilkynningunni.

Hér má finna upplýsingar um allar samgönguleiðir til og frá flugvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert