Maður á þrítugsaldri var með ógnandi tilburði og hélt tveimur hnífum á lofti í verslun Hagkaupa í Skeifunni um miðnætti í nótt. Vopnaðir sérsveitarmenn voru kallaðir til.
Maðurinn var handtekinn og bíður hann nú yfirheyrslu. Hann hafi verið með hótanir gagnvart fólki í versluninni.
Þetta staðfestir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Lögregla lagði hald á hnífana og var maðurinn vistaður í fangaklefa.
„Hann bíður þess að verða yfirheyrður í morgunsárið,“ segir Skúli.
Þá segir Skúli að reynt hafi verið að ræða við manninn í nótt, en það hafi ekki verið hægt í því ástandi sem maðurinn var.