Krafturinn svipaður og verið hefur

Frá eldgosinu í grennd við Grindavík á sunnudaginn.
Frá eldgosinu í grennd við Grindavík á sunnudaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Litlar breytingar eru á virkni eldgossins við Sundhnúkagíga frá því í gær að sögn náttúruvársérfræðings. Hraun rennur norðan og austan varnargarðanna.

„Út frá því sem við sjáum á vefmyndavélum virðist krafturinn vera mjög svipaður,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Það eru tveir gígar sem eru stærstir og svo eru nokkrir minni gígar.“

Hvað gasmengun varðar er norðan og norðaustanátt nú í morgunsárið. Þá berst gasmengun til suðurs og suðvesturs og gæti farið yfir Grindavík fyrri hluta dags, að sögn Einars.

Í kvöld snýst vindáttin og verður austlægari. Þá gæti gasmengun farið yfir Svartsengi og Reykjanesbæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert