Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, segir fyrirtækið hafa tekið tilboðum í 40 nýjar íbúðir í Silfursmára 2 síðan í janúar. Með því sé búið að taka tilboðum í 53 af 73 íbúðum í húsinu en meðalsöluverð íbúða í húsinu á árinu er um 109 m.kr.
„Verið er að afhenda íbúðir í húsinu þessar vikurnar en byggingin verður afhent í áföngum fram á vor. Síðasta húsið í verkefninu Smárabyggð fer síðan í sölu á næstu vikum en um er að ræða 53 íbúðir í Sunnusmára 10-14 sem koma til afhendingar í sumar og fram á haustið. Með því er að ljúka þessum hluta verkefnisins sem snýr að um 700 íbúðum en framkvæmdir hófust í maí 2017,“ segir Ingvi.
Klasi hefur nú byggt um 440 íbúðir í 18 stigagöngum í Smárabyggð auk þeirra íbúða sem eru að fara í sölu.
Spurður hvað skýri góða sölu að undanförnu nefnir Ingvi til dæmis að framkvæmdum við Silfursmára 2 sé að ljúka en það auðveldi sölu í húsinu. Jafnframt séu nú heldur jákvæðari horfur í efnahagsmálum.
„Húsið er lengra komið og er að klárast og áhugasamir sjá vöruna og þau gæði sem þeir eru að fara að kaupa. Við erum að ganga aðeins lengra í gæðum í Silfursmára 2 en almennt í Smárabyggð,“ segir Ingvi. Þau gæði birtist meðal annars í frágangi í anddyri og á sameign og t.d. loftskiptikerfi og auknum gæðum í innréttingum og tækjum.
„Smárabyggð hefur selt um 400 íbúðir í verkefninu. Búið er að selja 56 íbúðir af 70 í Silfursmára 4-8 og í Silfursmára 2 eru sem áður segir seldar 53 af 73 íbúðum,“ segir Ingvi.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.